Flytja úr Reykjavík vegna skólans

„Ef hún heldur áfram í þessum skóla þá mun hún …
„Ef hún heldur áfram í þessum skóla þá mun hún bara dragast endalaust aftur úr. Ég get ekki leyft því að gerast,“ segir móðirin. mbl.is/Karítas

Móðir stúlku á miðstigi í Breiðholtsskóla segir sárt að þurfa að flytja úr hverfinu sem dóttir hennar hefur alist upp í en það sé þó nauðsynlegt þar sem stúlkan sé ekki að fá menntun við hæfi.

Er fjölskyldan nú búin að selja eignina í Breiðholti og kaupa nýja í öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölskyldan hefur búið í hverfinu við Breiðholtsskóla í mörg ár og unað sér vel. Stúlkunni líkar almennt vel í skólanum og hefur ekki þurft að þola ofbeldið þar, sem hefur verið til umfjöllunar.

Móðirin, sem vill ekki koma fram undir nafni, segir erfitt að rífa dóttur sína upp með rótum og að hún þurfi að fara í burtu frá vinum sínum. „En menntunin verður að hafa forgang,“ segir hún.

„Ef hún heldur áfram í þessum skóla þá mun hún bara dragast endalaust aftur úr. Ég get ekki leyft því að gerast.“

Segist hún hafa heyrt af því að fleiri foreldrar vilji yfirgefa hverfið vegna ástandsins þar, og vísar hún þá einnig til ofbeldis- og eineltisvanda sem hefur þrifist í skólanum. Morgunblaðið og mbl.is hafa rætt við foreldra sem hafa neyðst til að láta börnin sín skipta um skóla vegna þessa.

Námið í klessu

„Aðalástæðan fyrir því að við erum á förum er að námið er í klessu. Við höfum horft á hennar árangur fara niður. Hún er eftir á í nánast öllum fögum,“ segir móðirin.

Stúlkunni gekk vel fyrstu árin í skóla en það var ekki fyrr en hún var rétt ókomin á miðstigið sem námsárangurinn tók að dala. Var það um það leyti er annar kennarinn sem kenndi árgangnum fór í veikindaleyfi. Var þá aðeins einn kennari eftir til að kenna tveimur bekkjum árgangsins.

Móðirin segir kennarann hafa gert sitt besta í þessum aðstæðum og að ástandið hafi ekki verið honum að kenna.

Dóttirin hafi þó ekki fengið þá menntun sem hún þurfti.

„Þetta er stelpa sem stóð sig rosalega vel í öllu í fyrsta, öðrum og þriðja bekk, var metnaðarfull og áhugasöm. Svo allt í einu er hún búin að dragast svakalega aftur úr. Hún átti að fá aukakennslu, en það tók um eitt og hálft ár að fá það í gegn, áhuginn dvínaði og metnaðurinn sömuleiðis.“

Foreldrarnir biðu eftir því hvort ástandið myndi batna þegar stúlkan fór yfir á miðstig. Ástandið varð þó litlu skárra en annar af tveimur kennurum árgangsins varð að taka við öðrum árgangi í skólanum eftir að annar kennari fór í veikindaleyfi.

„Aftur gerist það að árgangurinn er bara með einn kennara. Þá hugsuðum við að þetta væri ekki alveg að gera sig. Við komum okkur héðan,“ segir móðirin.

„Ég hef ekki áhuga á því að hafa barnið mitt í skóla í Reykjavík. Það virðist vera rosalega mikil þöggunarmenning og aldrei gert neitt í neinu og foreldrar illa upplýstir. Ég hafði samband við einkaskólana í fyrra en það var allt fullt þar. Þetta var bara eina leiðin.“

Lítið um stuðning við kennara

Móðirin ítrekar að hún telji að kennarar séu að reyna að gera sitt besta. Hún telur þó lítið um stuðning við þá í kennslustofum.

Í Breiðholtinu er hlutfall innflytjenda einnig hátt og því þyrfti meiri stuðning til að taka á móti þeim börnum sem ekki tala íslensku. Eins og mbl.is hefur greint frá hafa sum börn með erlendan bakgrunn í Breiðholti verið á biðlista eftir því að komast að í íslenskukennslu í íslenskuverum.

Móðirin segir ástandið hvorki gott fyrir börnin sem fá ekki að læra íslensku né íslensku börnin sem tala ensku við samnemendur sína.

Hún segist þó þakklát fyrir það að dóttir hennar hafi fengið að kynnast mörgum börnum af ólíku þjóðerni í Breiðholtsskóla og lært umburðarlyndi og kynnst öðrum menningarheimum.

„En hún er ekki að fá góða menntun. Hún er langt eftir á í stærðfræði og svo er enska mikið töluð í skólanum. Hún er farin að tala ensku – sem er gott, en ekki ef það er allan daginn.“

Nánari umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert