Kanna hvort glæpurinn hafi verið skipulagður

Maðurinn sem lést var búsettur í Þorlákshöfn.
Maðurinn sem lést var búsettur í Þorlákshöfn. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Sigurður Bogi

„Helgin fór í yfirheyrslur og öflun gagna, skýrslutökur af vitnum og öðrum aðilum. Þetta er umfangsmikið og mikil vinna í gangi,“ segir Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi í tengslum við rannsókn á manndrápsmáli sem upp kom í síðustu viku.

Maður á sjötugsaldri lést en hann fannst þungt haldinn í Gufunesi á þriðjudagsmorgun í liðinni viku. Hann hafði sætt barsmíðum og lést á sjúkrahúsi.

Hann tjáir sig ekki um það hvort allir sem lögregla teljist tengjast málinu séu í gæsluvarðhaldi.

Gríðarlegt magn mynda og myndskeiða

Það virðist margt benda til þess að þetta hafi verið skipulagður glæpur. Er það eitthvað sem þú getur tjáð þig um?

„Það er bara eitt af því sem við erum með til skoðunar,“ segir Jón Gunnar.

Níu voru handteknir fljótlega eftir að málið fór í rannsókn hjá lögreglu. Aðspurður segist Jón ekki getað tjáð sig um það hvort þeir sex sem eru í varðhaldi séu hluti af þeim hópi sem handteknir voru í fyrstu.

Jón Gunnar segir að lögreglu hafi borist gögn frá almenningi og fyrirtækjum, bæði af höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

„Það eru alls kyns gögn sem við erum að fara yfir. Bæði farsíma, myndbönd, myndir, eftirlitsvélar og fleira. Það er gríðarlegt magn gagna sem þarf að yfirfara,“ segir Jón Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert