Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út á laugardagskvöld eftir að tilkynning barst um blóðugan mann við strætóstoppstöð í Mjódd í Breiðholti. Hafði hópur ungmenna veist að manni sem nýlega var stiginn út úr strætisvagni. Tók einn þeirra sig til og kastaði broti úr gangstéttarhellu í höfuð mannsins.
Kristmundur Stefán Einarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð 3 í Kópavogi, segir að árásin hafi verið tilviljanakennd. Ekkert bendi til þess að ágreiningur hafi verið á milli mannsins og ungmennahópsins áður en árásin var gerð.
„Hann fékk skurð á höfuðið og fór á slysadeild þar sem gert var að honum. Hann var með fulla meðvitund þegar lögreglan kom,“ segir Kristmundur.
Málið þykir grafalvarlegt. Slíkur verknaður flokkast sem stórfelld líkamsárás að sögn Kristmundar. Ungmenni á fimmtánda aldursári hefur gengist við því að kasta gangstéttarbrotinu. Málið var rannsakað af lögreglu upp að vissu marki en vegna aldurs gerandans var málið einnig unnið með foreldrum og barnaverndaryfirvöldum.
„Þetta hefði alveg getað farið verr. Það má alveg segja það,“ segir Kristmundur.
Að sögn Kristmundar hefur ofbeldishegðun ungmenna á höfuðborgarsvæðinu farið vaxandi. Hefur meðal annars verið brugðist við því með því að auka viðveru og sýnileika lögreglu á vissum stöðum í Reykjavík.
„Lögregla hefur aukið vakt á þeim stöðum þar sem vart hefur orðið við hópamyndanir og ofbeldishegðun. Samfélagslögreglumenn eru líka að fara inn í skólana til að halda uppi forvarnarlöggæslu þar,“ segir Kristmundur.
Samkvæmt heimildum mbl.is er sá sem gengist hefur við verkinu hluti af hópi sem tengist meintri ofbeldisöldu í Breiðholtsskóla.