Kvarta undan Virðingu til Samkeppniseftirlitsins

Efling mótmælti fyrir utan Finnsson Bistro í nóvember vegna kjarsamninga …
Efling mótmælti fyrir utan Finnsson Bistro í nóvember vegna kjarsamninga sem starfsmenn hafi undirritað við Virðingu. mbl.is/Ólafur Árdal

ASÍ og félög innan vébanda sambandsins hafa sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins þar sem kvartað er undan stéttarfélaginu Virðingu sem sagt er gervistéttarfélag.

Virðing er sagt sprottið undan rifjum Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Eru meint brot sögð snúa að því að Virðing sé undir stjórn SVEIT og að gerðir hafi verið einhliða kjarasamningar við starfsfólk.

„Með þessu brutu hlutaðeigandi félög gegn banni gegn samráði keppinauta um verð, sbr. 1. mgr. og a.-liður 2. mgr. 10. gr. samkeppnislaga. Að því marki sem samráðið fór fram innan Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði var þá brotið gegn 12. gr. samkeppnislaga, sbr. 10. gr. þeirra, segir í tilkynningu frá ASÍ.

Leituðu til SGS og Eflingar 

Forsaga málsins er rekin í tilkynningunni. Segir að SVEIT hafi leitað til SGS árið 2022 þar sem kynntar voru hugmyndir um nýtt módel á veitingamarkaði.

„Umrætt módel átti meðal annars að fela í sér lengingu dagvinnutímabils og lægri álagsgreiðslur vegna vinnu utan dagvinnutíma,“ segir í tilkynningunni.

Segir að SGS hafi hafnað þessum hugmyndum og beint þeim orðum til SVEIT að beina óánægjuröddum sínum með kjarasamninga til SA. Í framhaldinu hafi SVEIT einnig rætt við Eflingu sem hafnaði umræddum hugmyndum.

Er sagt frá því að SVEIT hafi stefnt Eflingu fyrir félagsdóm þar sem niðurstaðan var að kjarasamningur Eflingar við SA gilti á veitingamarkaði.

Þá segir að árið 2023 hafi SVEIT krafist samningaviðræðna við SGS. Var á það bent að fyrirtæki í veitingageiranum væru ósjálfbær. Segir að 50% starfsmanna væru með undir 1. árs starfsreynslu og 80% starfa væru hlutastörf. Þannig væru 70% greiðslna greiddar með álagi. Slíkt umhverfi kallaði á sérsniðna kjarasamninga.

SGS taldi sér ekki fært að verða við kröfum um nýja kjarasamninga á þessum forsendum.

Virðing var stofnuð í fyrra

Þá segir að stéttarfélagið Virðing hafi verið stofnað í september í fyrra. Stéttarfélagið hafi haft þann tilgang að semja um kaup og kjör við starfsfólk á veitingamarkaði. Er gert að því skóna í yfirlýsingu ASÍ að fólk í Virðingu hafi áður haft tengsl við SVEIT. Þannig væri Virðing í raun beggja vegna borðs þegar kæmi að kjarasamningum á veitingamarkaði.

25. október hafi Sveit og Virðing svo skrifað undir kjarasamning. Segir að kjarasamningurinn hafi skarast talsvert við kjarasamning Eflingar og SGS við SA.

„Kveður kjarasamningur SVEIT og Virðingar þannig hvoru tveggja á um lægri laun og önnur starfskjör og lakari réttindi,“ segir í tilkynningunni.

Breytt álag skipti sköpum 

Talin eru upp 14 atriði sem ASÍ telur skerða réttindi starfsfólks. SVEIT tilkynnti svo að samningurinn hefði verið dreginn til baka í ljósi gagnrýni á hann. Eftir hafi þó staðið lengri dagvinnutími og lægri álagsprósenta vegna vinnu á kvöldin og um helgar.

„Um er að ræða þann tíma sem að 56% vinnustunda á veitingamarkaði fer fram á, samkvæmt greiningu sem SVEIT lét gera. Er þannig ljóst að jafnvel eftir breytingarnar mun samningurinn fela í sér verulega kjaraskerðingu fyrir stærstan hluta launafólks á veitingamarkaði,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert