Nýir kjarasamningar kennara hafa sett fjárhagsáætlanir sveitarfélaga og bæjarfélaga úti um allt land á hliðina, því hvergi var gert ráð fyrir tuga og hundraða milljóna aukningu á fjárútlátum sveitarfélagsins í fjárhagsáætlunum.
Fundað er nú stíft um landið og enginn þeirra sveitar- og bæjarstjóra sem Morgunblaðið ræddi við vildi gefa upp hvar yrði skorið niður vegna aukinna útgjalda. Þeir voru þó sammála um að einhvers staðar í kerfinu þyrfti að skera niður.
Á Akureyri eru aukin útgjöld vegna samninganna 450 milljónir á þessu ári og ekki ljóst hvernig því verður mætt.
Í Reykjanesbæ eru aukin útgjöld 580 milljónir og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri segir að bærinn vilji leita til fjármálaráðherra til að fá betri hugmynd um hvernig sé hægt að mæta þessum aukna kostnaði. Þá segir hann einnig að mótframlagi stjórnvalda í formi niðurfellingar á kostnaði við að reisa hjúkrunarheimili og umönnun barna með fjölþættan vanda sé misskipt milli sveitarfélaga.
Í Árborg er aukinn kostnaður vegna kjarasamningsins 280 milljónir á þessu ári og ekki ljóst enn hvernig hægt verði að leysa verkefnið. Í Norðurþingi er aukinn kostnaður 60-70 milljónir og þar hefur verið kallað eftir öllum undirsviðum til að skoða hvar væri hægt að finna fé til að mæta þessum aukna kostnaði.