Saksóknari hyggst ekki áfrýja sýknudómi í máli Alfreðs Erlings Þórðarsonar, sem banaði eldri hjónum í Neskaupstað í ágúst í fyrra.
Héraðsdómur Austurlands komst í síðustu viku að þeirri niðurstöðu að Alfreð hefði myrt hjónin, en mat hann ósakhæfan og sýknaði af refsikröfu ákæruvaldsins.
Vísir hefur það eftir skriflegu svari Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara að embættið ætli sér ekki að áfrýja dómnum. Alfreð var gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun og að greiða aðstandendum hjónanna sem hann myrti samtals 31 milljón í bætur.
Fram kom í dómi héraðsdóms að Alfreð væri talinn hættulegur samkvæmt dómkvöddum matsmanni og það talið forgangsatriði að hann væri á réttargeðdeild til að tryggja bæði hans öryggi og öryggi starfsfólks fangelsa.
Meðal gagna sem dómurinn vísaði til voru framburður vitna sem sáu Alfreð á ferð við húsið og upptaka úr eftirlitsmyndavél sem sýndi hann nálægt húsinu á þeim tíma sem áætlað er að hjónin hafi látist og blóðug föt sem hann klæddist við handtöku og voru glögglega þau sömu og hann var í á eftirlitsupptökunni.
DNA-rannsókn var gerð á blóði sem fannst á hamri sem hann var með í bifreið þegar hann var handtekinn í Reykjavík. Blóðið reyndist úr honum og hjónunum.
Að lokum reyndust skóför á vettvangi passa við þá skó sem Alfreð klæddist. Voru það einu skóförin á vettvangi sem höfðu stigið í blóð.
Viðurkenndi Alfreð fyrir dómi að hafa verið á heimili hjónanna, en sagði þau hafa verið látin þegar hann kom á staðinn. Sagðist hann hafa fundið hamarinn á gólfi baðherbergis í íbúð hjónanna og að „vísindamennirnir“ hafi beðið hann um að taka þennan hamar með sér og taldi hann greinilegt að þau hafi notað hamarinn á hvort annað. Sagðist hann jafnframt hafa þrifið hamarinn í eldhúsvaskinum.
Taldi dómurinn það vera hafið yfir skynsamlegan vafa að Alfreð hafi beitt hamrinum í atlögu gegn hjónunum og þar með fram væri komin lögfull sönnun þess að hann hafi veist að þeim í samræmi við ákæru.
Er niðurstaða Héraðsdóms því að hann hafi myrt hjónin.
Hins vegar er samkvæmt almennum hegningarlögum mælt fyrir að ekki skuli refsað þeim sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands hafi verið alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.
Dómkvaddur matsmaður sagðist ekki geta séð neina aðra túlkun mögulega en að Alfreð Erling hefði verið alls ófær um að stjórna gjörðum sínum á verknaðarstundu. Hann var þess vegna metinn ósakhæfur.