Um 200 fjölskyldur þurfa á stuðningi að halda

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að áætlað sé að …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að áætlað sé að um 200 fjölskyldur í Grindavík þurfi á stuðningi að halda. Samsett mynd

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, og Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, verða gestir Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra síðar í dag.

Fannar segir í samtali við mbl.is að skýrsla frá Deloitte verði kynnt og lögð fram á fundinum sem Deloitte var fengið til að gera til þess að stilla upp ýmiss konar sviðsmyndum varðandi málefni Grindvíkinga og taka saman stöðuna í Grindavík.

Ríkisstjórnin mun funda um málefni Grindvíkinga á morgun en á fundi bæjarstjórnar Grindavíkur með ríkisstjórninni fyrr í þessum mánuði komu fram áherslur bæjarstjórnarinnar.

Þær eru meðal annars um breytingar á lögum vegna tekjustofna sveitarfélaga, framlengingu frests til að óska eftir því að Þórkatla kaupi íbúðarhúsnæði og framlengingu á ýmsum stuðningsaðgerðum fyrir einstaklinga og fyrirtæki í Grindavík en stuðningsaðgerðirnar eiga að renna út um næstu mánaðamót.

Fannar reiknar með að kynnt verði í vikunni hvað verður um þær stuðningsaðgerðir sem hafa verið í gangi.

„Það hefur verið áætlað að um 200 fjölskyldur þurfi á stuðningi að halda en ég held að skýrslan frá Deloitte verði mjög upplýsandi,“ segir Fannar.

Biðstaðan svolítið sérkennileg

Hættustig almannavarna vegna hugsanlegs eldgoss við Sundhnúkagígaröðina hefur verið í gildi frá því í lok janúar og segir Fannar að biðstaðan sé svolítið sérkennileg.

„Við venjulegar aðstæður væri hættustig tekið talsvert alvarlega og er það auðvitað líka en samt er haldið úti starfsemi í bænum og það er dvalið í mörgum húsum. Þetta er því erfitt fyrir almannavarnir og bæjaryfirvöld að átta sig á stöðunni,“ segir hann.

Fannar segir að allir séu viðbúnir því að það byrji að gjósa en svo er bara spurning um tímasetninguna á því. Hann segir þægilegra viðfangs að takast á við gosið eins og veðráttan hafi verið undanfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert