Eldur kom upp hjá Norðuráli

Viðbragðsaðilar eru á vettvangi.
Viðbragðsaðilar eru á vettvangi. mbl.is/Árni Sæberg

Eldur kom upp í olíu í rafmagnsinntaki við álver Norðuráls á Grundartanga í kvöld. Búið er að slökkva eldinn.

Engin slys urðu á fólki. Lögregla og sjúkraflutningamenn voru einnig kölluð á vettvang. 

Þetta staðfestir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, í samtali við mbl.is. 

Stór truflun varð í kerfum Landsnets í kvöld eftir að það sló út í Norðuráli í kvöld. Rafmagnslaust var víða um land um skamma stund í kjölfarið.

Sólveig Bergmann, upplýsingafulltrúi Norðuráls, segir í samtali við mbl.is að eldurinn hafi ekki verið mikill. Segir hún að allt svæðið hafi verið rýmt. 

Rafmagn sló út hjá Norðuráli við eldinn en segir Sólveig að það sé komið aftur á að hluta. Nú sé unnið að því að ræsa alla verksmiðjuna.  

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá upplýsingafulltrúa Norðuráls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert