Alma D. Möller heilbrigðisráðherra segir að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum um í kringum 100 á ári hverju miðað við öldrun þjóðarinnar að óbreyttu næstu árin.
Ekki er þá meðtalin sú innviðaskuld sem safnast hefur upp þegar kemur að hjúkrunarrýmum en nú eru um 500 manns að bíða og þá er ákveðin fjöldi í biðrýmum. Samtals er um að ræða um 700 einstaklinga að sögn Ölmu.
Þetta er svokallaður flæðisvandi sem ráðherra vill frekar kalla útskriftarvanda en um 23% einstaklinga sem liggja inni á spítölum um allan heim eru tilbúnir til útskriftar. Talið er að hlutfallið geti verið enn hærra á Íslandi þar sem skortur er á úrræðum utan spítala.
Spurð hvað sé til ráða segir Alma að helst vilji ríkisstjórnin bæta við mörg hundruð rýmum. Vísar hún í áætlun þar um síðan í nóvember sem hún segir að standi til að uppfæra á næstu vikum.
„Þegar eru úrræði í byggingu en betur má ef duga skal,“ segir Alma og bætir við að búið sé að gera ráð fyrir fjármunum í frekari uppbyggingu. Hún er ekki tilbúin að úttala sig um fjárhæðir í þeim efnum enda uppbyggingin sem slík á forræði húsnæðismálaráðherra.
Alma segir að einnig standi til að byggja við bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi en þar verði tugir rýma. Muni það hjálpa til við að létta á göngum bráðamóttöku þar sem fólk bíður iðulega í tugatali.
Viðbyggingin verði létt bygging sem fljótlegt verði að koma upp og með þeirri viðbót fjölgi legurýmum á Landspítala.
Alma segir stærsta einstaka liðinn í að leysa útskriftarvandann að fjölga hjúkrunarrýmum. Það segir hún á borði félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Ég veit að þar er unnið að miklu kappi við að skoða hvernig hægt er að fjölga hjúkrunarrýmum hratt.“