Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingar gagnrýnir ákvörðun Rósu Guðbjartsdóttur sem ákveðið hefur að sitja áfram í stjórn SÍS, að sinni hið minnsta.
Segir Guðmundur Ari í færslu á Facebook að hagsmunaárekstrar felist í því að vera í stjórn SÍS samhliða þingstörfum. Rósa var kjörin á þing fyrir Sjálfstæðismenn í síðustu þingkosningum.
„Þetta er svo galið. Eitt af meginmarkmiðum Sambands íslenskra sveitarfélaga felst í hagsmunagæslu sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu. Sambandið mótar stefnu sveitarfélaganna og hefur svo náin samskipti við Alþingi,
Það að þingmaður sitji í stjórn sambandsins er algjör hagsmunaárekstur og trúnaðarbrestur við sveitarfélögin í landinu. Þessi ákvörðun Rósu setur alla stjórnina í skrýtna stöðu þar sem þau trúnaðarsamtöl sem fram fara í stjórn Sambandsins fara nú fram með fulltrúa Alþingis á fundunum,“ segir Guðmundur Ari m.a. í færslu sinni.
Bendir hann á að Sjálfstæðismenn hafi gagnrýnt Bjarna Jónsson, þingmann VG á síðasta kjörtímabili, fyrir að hafa ekki sagt sig frá stjórn SÍS.
„Hvernig getur einstaklingur í fullu starfi á Alþingi mætt á sama tíma á bæjarstjórnarfundi, nefndarfundi og fundi í stjórn Sambandsins?,“ spyr Guðmundur Ari í færslu sinni.