Dr. Ragnar Árnason, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að gjaldeyrishöftin sem lögð voru á hér á landi í tengslum við bankahrunið 2008 hafi í raun verið einskonar blekking. Ekki hafi verið nauðsynlegt að leggja þau á og alls ekki í þann langa tíma sem raun varð á.
Nefnir Ragnar þetta á vettvangi Spursmála þegar hann er spurður út í kosti og galla þeirrar hugmyndar að Ísland taki upp evru.
Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan:
Eitt af því sem menn hafa notað sem gagnrýnipunkt á krónuna eru gjaldeyrishöftin sem við höfum þurft að setja hér á við erfiðar aðstæður. Það dregur bæði úr verðmætasköpun og frelsi fólks til þess að ráðstafa sínum verðmætum eins og því sýnist.
„Já við höfum nú ekki gjaldeyrishöft í dag. Við höfðum gjaldeyrishöft í fjármálakreppunni miklu á árunum 2008-2009. Þú orðaðir þetta þannig að við hefðum orðið að setja þessi gjaldeyrishöft á. Ég held að það væru nú ekki margir hagfræðingar sem myndu fallast á að við höfum neyðst til þess. Við kusum að gera það. Og þegar við geðrum það þá töluðum við um að vera með þau í nokkra mánuði. Síðan reyndist þetta bara þægilegt fyrir stjórnmálamenn og seðlabankann og slíka aðila þannig að þessi höft urðu miklu langvinnari en þau hefðu þurft að vera.“
„Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé ólíklegt að við höfum þurft að taka höftin upp yfirleitt. En kannski réttlætanlegt að taka þau upp á þeim tíma í einn eða tvo mánuði. Annað eins hefur nú gerst hjá mörgum öðrum löndum, stórum löndum. Ég nefni nú bara Bretland til dæmis, tímabundið vegna óvæntra áfalla en við hefðum aldrei átt að hafa þessi höft árum saman eins og við gerðum.“
Viðtalið við Ragnar má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:
Nei, sjö eða átta ár sem þetta entist.
„Já þau voru afnumin í skrefum. Eitt af því sem var notað til að viðhalda þeim var snjóhengjan og uppgjör þrotabúa. Og það var bara önnur blekking. Ég held að það hafi bara verið leið til að auðvelda hagstjórnina fyrir þá sem áttu að vinna að þeim málum. Léttari vinna fyrir þá.“