„Hermann Austmar er hetja“

Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það hefði verið …
Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það hefði verið ömurlegt að fylgjast með málinu. Samsett mynd/mbl.is/Karítas

„Virðulegi forseti. Hermann Austmar er hetja,“ sagði Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag.

Hermann er faðir stúlku í sjöunda bekk í Breiðholtsskóla sem hefur stigið fram og gagnrýnt aðgerðarleysi Reykjavíkurborgar gagnvart ofbeldis- og eineltisvanda í skólanum sem hefur staðið yfir árum saman.

Þarf mikinn kjark

„Það þarf mikinn kjark til að koma fram og gagnrýna skóla barnanna sinna. Enginn vill eiga í illdeilum við skóla barnanna sinna. Skólar eiga að vera griðastaður en ekki vettvangur daglegs ofbeldis árum saman. Nú höfum við embættismenn, stjórnmálamenn og ráðherra á góðum launum sem á góðviðrisdögum belgja sig út og tala fjálglega um börn og ungmenni, að þau eigi skilið það besta og að við eigum að hlusta á þau.

Svo koma erfið mál. Þá sér maður undir iljarnar á sama fólki. Og þau sem enda með heitu kartöfluna kasta henni umsvifalaust frá sér, bara eitthvert annað,“ sagði Jón Pétur undir liðnum störf þingsins í dag.

Ömurlegt að fylgjast með málinu

Hann bætti við að það hefði verið ömurlegt að fylgjast með málinu í Breiðholtinu síðastliðnar vikur. Þetta væri mál sem hefði verið í gangi árum saman samkvæmt foreldrum í skólunum, mál sem bitnaði á tugum og hundruðum barna hvern dag, mál sem skaðaði framtíðarmöguleika barna, mál sem hrekti íbúa úr hverfinu sínu.

„Fjölskyldur eru að flytja í burtu úr hverfinu.“

Segir þetta vera prófmál

Jón Pétur benti á að svona staða sprytti ekki upp úr tómarúmi.

„Jarðvegur þarf að vera til staðar. Það þarf góðan tíma fyrir svona mál að þroskast og dafna. Börn, foreldrar og starfsmenn skólans hafa beinlínis öskrað hjálp með gerðum sínum og tali í langan tíma. Fullorðna fólkið á góðu laununum, það yppir bara öxlum og sendir boltann á næsta mann og ráðherrann horfir bara á. Á meðan þjást fjölskyldur í Bökkunum. Þetta er prófmál á það hvernig við sem samfélag tökum á svona málum. Þetta er prófmál,“ sagði Jón Pétur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert