„Heilsan er góð og minnið einstakt,“ segir Leifur Franzson um móður sína Jóninnu Margréti Pálsdóttur, sem fædd er 17. mars 1920 og varð 105 ára í gær. Hún er næstelsti Íslendingurinn. Eldri henni er Þórhildur Magnúsdóttir, sem varð 107 ára í desember.
Fram á síðustu misseri hélt Jóninna eigið heimili í Granaskjóli í Reykjavík, en hjartað slær í Stykkishólmi, þar sem hún er uppalin. Hún býr nú á dvalarheimili Hrafnistu við Sléttuveg. Stór hópur afkomenda heilsaði upp á Jóninnu um helgina.
Jóninna er dóttir Páls V. Bjarnasonar sýslumanns í Stykkishólmi og Margrétar Árnadóttur konu hans. Hún náði 101 árs aldri og Hildur Solveig, systir Jóninnu, varð 103 ára. Það er sem sagt langlífi í ættinni.
Eiginmaður Jóninnu var Franz E. Pálsson. Fjórir synir Jóninnu og Franz eru Páll tollvörður, Hjalti jarðfræðingur, Leifur lyfjafræðingur og yngstur er Bogi, skógfræðingur og kennari.