Samþykkt var á fundi borgarstjórnar nú fyrir skömmu að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, um að borgarstjórn samþykki að hafist verði handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi, til umhverfis- og skipulagsráðs. Fulltrúar minnihlutans töldu eðlilegra að tillagan yrði fullnaðarafgreidd á fundi borgarstjórnar í dag.
Var tillaga sama efnis, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa nokkrum sinnum talað fyrir, felld fyrir réttu ári, 19. mars í fyrra, og sakaði Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins þáverandi meirihluta þá um þröngsýni, skammsýni og viljaleysi.
Einar Sveinbjörn Guðmundsson, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lýsti miklum stuðningi við tillöguna í dag, en treysti sér ekki til að samþykkja hana á fundinum og snerist flokkur hans því í fyrri afstöðu sinni sem hefur verið að styðja eldri tillögur um málið án fyrirvara.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir í samtali við mbl.is að Flokkur fólksins hafi alltaf stutt tillögur sjálfstæðismanna í gegnum tíðina. „Við höfum flutt tillögur af þessum toga oft áður. Fyrirliggjandi tillaga byggir á ákveðinni framsýni, en við teljum mikilvægt að huga að framtíðarbyggð á Geldinganesi samhliða skipulagi Sundabrautar,“ segir Hildur.
„Brautin mun óhjákvæmilega þvera Geldinganesið og þess þarf að gæta að ekki verði lagður vegur yfir besta byggingarlandið. Flokkur fólksins hefur stutt þessar hugmyndir okkar gegnum árin en virðist í klemmu í núverandi samstarfi,“ heldur Hildur áfram.
Segir hún borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ítrekað hafa lent í því á yfirstandandi kjörtímabili að þegar meirihlutinn nái ekki saman í afstöðu sinni gagnvart málum sjálfstæðismanna sé sú leið almennt farin að afgreiða ekki málið í borgarstjórn heldur fela ósamstöðuna með því að vísa málinu inn í kerfið þar sem það svo týnist.
Spurð út í málefni Geldinganess segir hún brýnt að tekið verði að skipuleggja svæðið. „Það sem er svo aðkallandi núna er að Sundabrautin verði hönnuð með hliðsjón af tækifærum til framtíðaruppbyggingar húsnæðis á aðliggjandi svæðum. Sundabraut þarf að teikna, hanna og leggja án þess að tækifæri framtíðarkynslóða til húsnæðisuppbyggingar á nýjum svæðum verði útilokuð. Fyrirhyggja skiptir miklu í öllu skipulagi,“ svarar Hildur.
Umræða um málið stóð í á fjórða tíma á fundinum í dag og segir Hildur að hún hafi ekki átt von á að fimm flokka meirihluti, með Samfylkingu og Pírata innanborðs, veitti málinu brautargengi.
„Þessir flokkar hafa talað mjög gegn uppbyggingu á Geldinganesi og fellt margar tillögur okkar í þá veru, tíðindin í málinu eru kannski þau að Framsókn og Viðreisn, sem hafa áður fellt sambærilegar tillögur okkar, eru núna komin á vagninn og hafa lýst yfir stuðningi við hugmyndir um framtíðaruppbyggingu á Geldinganesi. Við fögnum því auðvitað enda færðu þau skynsamleg rök fyrir afstöðunni. Flokkur fólksins er hins vegar þvældur inn í þennan meirihluta og er í dálítilli klemmu,“ segir Hildur og kveður pólitíkina í málinu sérkennilega.
Augljós pólitískur meirihluti sé fyrir málinu í borgarstjórn, meirihluti borgarfulltrúa vilji að svæðið verði skoðað til framtíðar.
„Við erum ekki að tala um að Geldinganesið fari í uppbyggingu á næsta ári, Aðalskipulag Reykjavíkur gildir hins vegar bara til ársins 2040. Það eru fimmtán ár eftir af þessu skipulagi sem er ofsalega stuttur tími í skipulagslegu samhengi,“ bendir Hildur á.
Huga þurfi að því fyrr en varði hvað við taki þegar skipulagstíminn sé á enda. „Miðað við húsnæðisvandann, eins og hann blasir við, er augljóst að við munum þurfa að brjóta nýtt land. Með tilkomu Sundabrautar munu opnast gríðarleg tækifæri til húsnæðisuppbyggingar við Sundin, tækifæri til að skipuleggja svokallaða Sundabyggð, og þar á meðal er Geldinganesið,“ segir Hildur Björnsdóttir oddviti að lokum.