Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði leiguhúsnæðið í Blönduhlíð í Mosfellsbæ að umtalsefni á Alþingi í dag. Hún sagði að opnun ráðherra Framsóknarflokksins, sem var kynnt skömmu fyrir kosningar, hafi verið „leikrit sett upp til þess að blekkja kjósendur skömmu áður en þeir gengu inn í kjörklefann.“
Arna Lára ræddi málið undir liðnum störf þingsins í dag. Hún benti á nýlegar fréttir þess efnis að ríkið hefði verið að borga margar milljónir í leiguhúsnæðinu sem hafði verið ætlað að vera meðferðarheimili fyrir börn og ungmenni í vanda, en mbl.is greindi frá málinu í febrúar.
Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, opnaði húsnæðið fjórum dögum fyrir kosningar, en þingkosningar fóru fram 30. nóvember.
„Við það tilefni sagði hann að hvert barn ætti rétt á öruggu og hlýju umhverfi þar sem það fyndi fyrir stuðningi og fengi þá aðstoð sem það þyrfti.
Ekkert barn hefur fengið öruggt og hlýtt umhverfi í Blönduhlíð. Meðferðarheimilið hefur nefnilega aldrei opnað og óvíst er hvort það muni gera það yfirhöfuð þar sem húsnæðið uppfyllir ekki kröfur um brunavarnir. Opnunin var nefnilega leikrit sem var sett upp til að blekkja kjósendur skömmu áður en þeir gengu inn í kjörklefann,“ sagði Arna Lára.
Hún bætti við að það væri ekki bara óskammfeilnin í þeirri blekkingu sem vekti athygli, heldur hefði nú verið vakin athygli á því í fjölmiðlum að leigusamningurinn sem gerður hefði verið við eigendur húsnæðisins hefði ekki farið hina hefðbundnu leið í gegnum Framkvæmdasýslu ríkisins.
„Enn fremur kemur fram í leigusamningnum að leigutaki sætti sig að öllu leyti við ástand húsnæðisins. Vegna þessa hefur ríkissjóður verið að borga milljónir króna í leigu fyrir húsnæði sem ríkið getur ekki notað og milljónir króna í leigu fyrir húsnæði sem það þarf að leigja í staðinn fyrir þessa starfsemi,“ sagði Arna Lára og bætti við að þessi vinnbrögð væru óboðleg með öllu.
Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, brást við orðum Örnu Láru og sagði að allir gætu verið sammála því að skynsamlegra hefði verið að vinna málið betur.
„Hins vegar er mikilvægt líka að koma því á framfæri að það stendur í leigusamningnum að komi í ljós á fyrstu sex mánuðunum að húsnæðið sé ekki hæft börnum af einhverjum ástæðum þá sé það ekki leigutakanum kenna og þá megi rifta leigusamningnum. Það hefur ekki verið gert af núverandi ríkisstjórn og hefur hæstvirtur ráðherra komið því á framfæri að húsnæðið muni fara í aðra notkun.“