Lögregla hefur haldið spilunum þétt að sér í rannsókn á manndrápsmáli vegna rannsóknarhagsmuna. Málið þykir óvenjulegt fyrir þær sakir að auk þess að rannsaka manndráp snýr rannsóknin að frelsissviptingu og fjárkúgun. Fá ef nokkur dæmi eru um það í íslenskri réttarsögu. Jafnframt er óvenjulegt hversu margir hafa verið handteknir í tengslum við rannsóknina og hnepptir í varðhald.
Maður á sjötugsaldri lést á sjúkrahúsi eftir að hann fannst þungt haldinn í Gufunesi.
Sex eru í gæsluvarðhaldi og Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi sem fer með rannsókn málsins, vill ekki tjá sig um það hvort fleiri handtökur gætu verið í farvatninu í tengslum við rannsókn málsins.
„Frelsissviptingin er alvarleg ein og sér, fjárkúgun er alvarlegur glæpur einn og sér og svo er mannslátið sem við erum að rannsaka. Það eru margir aðilar sem er verið að rannsaka og það segir sig sjálft að það eru margir angar sem þarf að rannsaka. Samfélagið okkar er að breytast með því tilliti að við höfum fengið myndbandsupptökur úr húsum, bílum og símum. Það er tímafrekt að fara yfir það efni og skoða hvað á við þegar kemur að rannsókn málsins,“ segir Jón Gunnar.
Hann segir að rannsókninni miði vel og yfirsýn sé orðin ágæt.
Fyrstu gæsluvarðhaldsúrskurðirnir renna út á morgun en fyrstu úrskurðirnir giltu í viku. Jón Gunnar segir að enn eigi eftir að leggja mat á það hvort krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds.
Eru enn sex í gæsluvarðhaldi?
„Já, það eru enn sex í gæsluvarðhaldi,“ segir Jón Gunnar.