Rúmmál kviku undir Svartsengi hefur aldrei verið meira

Líklegast er að kvika komi fyrst upp milli Sundhnúka og …
Líklegast er að kvika komi fyrst upp milli Sundhnúka og Stóra-Skógfells, líkt og í sex af síðustu sjö eldgosum frá árslokum 2023. mbl.is/Árni Sæberg

Kvikusöfnun heldur áfram á Reykjanesskaga og rúmmál kviku undir Svartsengi hefur aldrei verið meira frá því að goshrinan hófst í desember 2023. 

Líklegasta sviðsmyndin að mati Veðurstofu Íslands er að þetta kvikusöfnunartímabil endi með kvikuhlaupi og eldgosi sem kæmi fyrst upp á svæðinu milli Sundhnúka og Stóra-Skógfells.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að skjálftavirkni hafi aukist hægt síðustu vikur sem bendi til að þrýstingur á gosstöðvunum sé að aukast. Gera þurfi ráð fyrir að eldgos geti hafist með mjög skömmum fyrirvara.

Þá hefur verið gefið út nýtt hættumatskort sem gildir frá deginum í til 25. mars kl. 15. 

Kortið sýnir mat á hættu sem er til staðar og …
Kortið sýnir mat á hættu sem er til staðar og hættu sem gæti skapast með litlum fyrirvara. Eingöngu er lagt mat á hættu innan þessara svæða, en hætta getur leynst utan þeirra. Litur svæða endurspeglar heildarhættu innan þeirra. Sú hætta sem metin er hærri en önnur innan svæða, er feitletruð í listanum á kortinu. Kort/Veðurstofa Íslands

Við hverju má búast í næsta eldgosi?

„Líklegast er að kvika komi fyrst upp milli Sundhnúka og Stóra-Skógfells, líkt og í sex af síðustu sjö eldgosum frá árslokum 2023. Gossprungan gæti síðan breiðst út í norðaustur og/eða suðvestur átt yfir nokkra kílómetra. Slík eldgos gætu orðið með mjög litlum eða engum fyrirvara.

Hins vegar er ekkert í mæligögnum sem útilokar að eldgos geti átt sér stað nærri eða sunnan við Hagafell, líkt og var í tilfelli gossins í janúar 2024. Viðvörunartími fyrir eldgos sem hefst við Hagafell væri lengri, um það bil 1 til 5 klukkustundir. Lengri viðvörunartími fer eftir því hversu langt suður kvikan brýst áður en hún nær yfirborði. Um það bil 4,5 klukkustundir liðu frá fyrstu merkjum þann 14. janúar þar til gosið hófst. Aukning á jarðskjálftavirkni er líkleg ef kvikan fer þessa leið,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert