Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann á Bifröst, segir niðurstöðu landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna varðandi endurskoðun á skilgreiningu landgrunns Íslands vera stórsigur fyrir Ísland.
Niðurstaða nefndarinnar vegna endurskoðaðrar greinargerðar Íslands um landgrunn á Reykjaneshrygg barst íslenskum stjórnvöldum á föstudag. Ákvæði var sett í hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna á níunda áratugnum – með Reykjaneshrygg í huga – sem átti að koma í veg fyrir að hægt væri að fara lengra út en 350 sjómílur.
Landgrunnssvæðið sem nefndin samþykkti er töluvert víðfeðmara og nær rúmar 570 sjómílur frá grunnlínum. Að sögn Bjarna var þessum árangri náð fram „með ýmsum mjög flottum röksemdarfærslum“.
„Í stuttu máli er þetta stórsigur. Þetta er önnur greinargerðin sem Ísland sendir inn um Reykjaneshrygginn, þar sem landgrunnsnefndin var ekki til í að fallast að öllu leyti á málatilbúnað Íslands í þeirri fyrri,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Felur þessi ákvörðun í sér aukna skyldu fyrir Ísland?
„Það er bara stærra svæði sem Ísland hefur lögsögu á. Það er eitt sem þarf þó að gerast í þessu. Ísland þarf að útfæra þetta í innlendri löggjöf; ef Ísland fellst á þetta er þetta endanlegt og bindandi. Þetta er nefnilega mjög athyglisvert ákvæði.
Þetta er ekki eins og efnahagslögsagan. Þetta eru takmarkaðari réttindi en þar eru. Þetta snertir í rauninni bara hafsbotninn.“
Fylgir þessu þá heimild til að nýta efni úr hafsbotninum?
„Já, náttúruauðlindirnar sem um ræðir eru jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma og aðrar ólífrænar auðlindir hafsbotnsins og botnlaganna – eins og jarðhiti – ásamt lífverum í flokki botnsetutegunda – eins og krabbar og slíkt,“ svarar Bjarni, en að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins hafa réttindi strandríkisins yfir landgrunninu utan efnahagslögsögunnar ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan og ná því ekki til fiskistofna eða annarra auðlinda.
„Þetta er rosalega víðáttumikið svæði en svo á eftir að semja um Hatton Rockall,“ bætir hann við, en Bretland, Írland og Danmörk/Færeyjar gera einnig tilkall til Hatton Rockall-svæðisins. Greinargerð um Hatton Rockall-svæðið er í undirbúningi.
Telurðu það áhyggjuefni að önnur lönd geri einnig tilkall til Hatton Rockall-svæðisins?
„Þetta er svolítið snúið. Þetta eru í rauninni tveir ferlar sem eru í gangi, annars vegar þarf ríkið að sýna fram á tilkall sitt til landgrunnsins utan 200 sjómílna og svo er samningaferli.“
Eins og áður segir kemst Ísland nú töluvert mun lengra en upphaflega var stefnt að á níunda áratugnum. Í reglugerð frá árinu 1985, nr. 196/1985, var gert ráð fyrir að staðar yrði numið við 350 sjómílna markið á Reykjaneshrygg, í samræmi við 6. mgr. 76. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Þetta segir Bjarni hafa verið gert með Reykjaneshrygg í huga.
„Það voru Sovétmenn sem vildu fá þetta samþykkt, svo að NATO hefði ekki hryggi um allan hafsbotninn,“ segir Bjarni.
Ísland kemst samt sem áður 570 sjómílur núna, en að sögn Bjarna var því náð í gegn „með ýmsum mjög flottum röksemdarfærslum“.
Birgir Hrafn Búason, deildarstjóri þjóðréttarmála hjá utanríkisráðuneytinu, hafði það hlutverk í þessu ferli að nýta vísindaleg gögn sem rökstuðning í máli Íslands.
„Þetta er langt ferli og allt gert á vísindalegum grundvelli. Við þurfum að sýna fram á að þessi hluti af landgrunni sem við gerum tilkall til sé hluti af Íslandi, þetta séu svæði sem eru jarðeðlisfræðilega, bergfræðilega og jarðefnafræðilega tengd Íslandi. Í þessu tilviki náðum við að sýna fram á það á grundvelli mikilla vísindalegra gagna.
Þetta byggðist mikið til á áhrifum frá heita reitnum. Þessi hluti Reykjaness og þessi sérstaka lögun – hann er í laginu eins og V og er talinn mjög sérstakur hryggur – hafi orðið til og orðið eins og hann er í sama ferli og er grundvöllurinn fyrir tilurð Íslands.
Það var í rauninni þannig sem við náðum að sannfæra þá um að við ættum þetta land,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Bjarni skrifaði doktorsritgerð sína um landgrunnið utan 200 sjómílna við lagadeild Edinborgarháskóla og gaf síðar út bók um þau mál hjá Brill/Nijhoff. Auk þess var hann í lagateymi Bangladess gegn Myanmar í máli um afmörkun hafsvæða ríkjanna fyrir Alþjóðlega hafréttardómnum. Var það fyrsta málið þar sem tekist var á um landgrunnið utan 200 sjómílna.
Sómalía, Nikaragva og Kólumbía hafa meðal annars vísað í skrif hans um landgrunnið utan 200 sjómílna í málflutningi fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Þá flytur hann reglulega fyrirlestra um þessi mál, síðast í Suður-Kóreu í nóvember og nú næst á föstudaginn í næstu viku við Edinborgarháskóla.
Hann situr í samráðshópi um landgrunnið á NA-Reykjaneshrygg og Hatton Rockall en er þar sjálfstæður aðili og tekur ekki þátt í eiginlegri vinnu.
„Ég var ekki úti að reka mál Íslands, svo það sé alveg á hreinu. Það voru starfsmenn stjórnvalda,“ tekur hann sérstaklega fram að lokum.