Sérsveit ríkislögreglustjóra var send til Bolungarvíkur á níunda tímanum í morgun, en þá var fólk talið í hættu. Hættuástandi hefur hins vegar verið verið afstýrt, að talið er.
Þetta staðfestir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is. Hann segir íbúa Bolungarvíkur ekkert þurfa að óttast.
Ástandið var þannig í morgun að bregðast þurfti skjótt við, að sögn Hlyns, og var sérsveitin send með þyrlu til Bolungarvíkur.
Hann vill ekki gefa upp hvers eðlis málið er eða hvort einhver hafi verið handtekinn, en segir lögregluna vera að ná utan um málið.
Aðgerðin hefur staðið yfir síðan í morgun en henni er nú að ljúka.
Var einhver í hættu?
„Já, það var talið í morgun,“ segir Hlynur.
Það er búið að afstýra því ástandi?
„Já við teljum það,“ segir Hlynur.
„Íbúar í Bolungarvík þurfa ekki að óttast neitt,“ segir hann jafnframt.
Fréttin hefur verið uppfærð.