Sýknaður af ákæru um óviðeigandi myndsendingar

Ekkert í gögnum málsins segir til um hvernig málið hafi …
Ekkert í gögnum málsins segir til um hvernig málið hafi borist lögreglu. AFP/Kirill Kudryavtsev

Karlmaður hefur verið sýknaður í Héraðsdómi Norðurlands eystra af ákæru um að hafa sent kynferðislegar myndir af sér á samskiptaforritinu Snapchat á 13 ára dreng. Telur dómurinn að lögreglan hafi ekki hagað rannsókn málsins í samræmi við 53. og 54. gr. laga nr. 88/2008.

Meint brot átti sér stað árið 2021 en ákærði var boðaður í fyrstu skýrslutökuna sína vegna málsins tæplega þremur árum síðar.

Í dómi héraðsdóms segir að engin skýrsla liggi fyrir um upphaf málsins eða rannsókn þess. Brotaþoli hafði gefið skýrslu í barnahúsi í maí 2021 þar sem hann skýrði frá því að fullorðinn maður hefði verið í sambandi við hann á Snapchat-reikningi sínum. Maðurinn hafði spurt brotaþola um aldur hans og í kjölfarið sent honum myndir og myndskeið þar sem sást í getnaðarlim hans. 

Drengurinn sagði föður sínum frá því hvað hafði gerst um hálfum degi síðar og kvað hann son sinn hafa verið í miklu uppnámi og atvikið hafa haft mikil áhrif á líðan hans á þessum tíma.  

Engar skýringar á töf

Líkt og fyrr segir var skýrsla tekin af ákærða tæplega þremur árum eftir atvikið átti sér stað. Í niðurstöðu dómsins segir að engar skýringar liggi fyrir hvers vegna það hafi orðið svona mikil töf í málinu. 

„Engin skýring hefur verið gefin á þessari töf en ljóst að svo löng töf getur dregið úr möguleikum grunaðs manns í máli af þessu tagi til að afla gagna sem skipt gætu máli. Sími ákærða virðist ekki hafa verið skoðaður enda raunar svo langur tími liðinn þegar hann var yfirhærður að það hefði tæpast getað skilað nokkru,“ segir meðal annars í dómnum. 

Lögreglan óskaði fyrst eftir gögnum frá Snapchat sama dag og ákærði fór í skýrslutöku hjá lögreglu í janúar 2024. Þar sem svo langur tími var liðinn frá atvikinu var ekki hægt að ná í samskiptagögn aftur í tímann heldur aðeins hægt að staðfesta notendanafn sem brotaþoli kvað ákærða hafa verið með á Snapchat. 

Mundi ekki eftir meintum samskiptum

Í skýrslutöku yfir ákærða kannaðist hann við notendanafnið sem brotaþoli gaf upp en kvaðst ekki muna eftir meintum samskiptum. Sagði hann umræddan tíma vera í móðu fyrir honum vegna þunglyndis og mikillar áfengisneyslu. Kvað hann það hugsanlegt að hafa einhvern tímann sent af sér nektarmynd á Snapchat, en það hafi þá verið óvart. 

Í dómnum segir að ekkert í gögnum málsins segi hvernig málið hafi borist lögreglu, hvenær og hvaðan lögregla fékk skjáskot af samskiptum ákærða og brotaþola, á hvaða formi eða hvort lögreglumenn hafi skoðað síma eða tölvu brotaþola. 

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarslaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert