„Það verður ekkert eftir“

„Það verður ekkert eftir hér í lok dags býst ég við.“

Þetta segir Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus, en nú stendur yfir rýmingarsala á öllum vörum í verslun Bónus í Naustahverfi á Akureyri.

Afsláttur er 30% af öllum vörum og segir Björgvin viðtökurnar hafa verið ótrúlegar.

Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus, er ánægður með viðtökur Akureyringa.
Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus, er ánægður með viðtökur Akureyringa. mbl.is/Þorgeir

Allt kjöt kláraðist á klukkutíma

Allt kjöt og þessar helstu vörur hafi klárast á fyrsta klukkutímanum. Telur Björgvin að ekki sé meira en þriðjungur eftir af öllum vörum í búðinni.

Björgvin segir að þessi háttur hafi almennt verið hafður á þegar breyta þurfi það miklu í búðinni að ekki sé annað hægt en að loka.

Leyfa kúnnanum að njóta

Er þetta eingöngu gert til að losa vörurnar eða sumpart einnig til að þakka fólki væntanlega biðlund á meðan búðin verður lokuð?

„Þetta er reyndar mjög góð spurning. Við tölum mikið um að reyna að leyfa kúnnanum að njóta góðs af þegar við erum að fara í svona framkvæmdir. Þess vegna eru við mjög ánægð með móttökurnar og okkur þykir gaman að sjá hvað er augljóst hversu vel er tekið í þetta.“

Búðin var troðfull frá opnun klukkan 10 í morgun.
Búðin var troðfull frá opnun klukkan 10 í morgun. Ljósmynd/Bónus

Líklega stærsta start á rýmingarsölu í Bónus

Fáið þið alltaf svona góðar móttökur við þessum rýmingarsölum?

„Ég er náttúrulega ekki búinn að vera það lengi hér til að segja nákvæmlega hvernig það hefur verið en með mér eru fróðari menn sem hafa verið hér lengur og þekkja tímana tvenna. Þeir segja að þetta sé líklega stærsta startið sem við höfum séð.

Það var ekki þverfótað hérna í morgun,“ segir Björgvin og hlær. „Það var ekki hægt að komast að hillunum, þú þurftir bara að velja eina leið og fara svo í röðina.“

All kjöt kláraðist á klukkutíma.
All kjöt kláraðist á klukkutíma. mbl.is/Þorgeir

Tók langan tíma að komast í gegn

Björgvin segir það ofsögum sagt að tekið hafi allt að tvær klukkustundir að komast inn í búðina í dag. Segir hann þann tíma frekar eiga við að komast í gegnum hana alla og út úr henni.

„Það er aðeins farið að létta á þessu núna,“ segir framkvæmdastjórinn. Hann segir mjög marga hafa keypt mjög stórar körfur og að þær stærstu hafi kostað um 40-50 þúsund krónur með 30% afslætti.

Opið verður til 20 í búðinni í kvöld eins og alla daga. Þorgeir Baldursson, fréttaritari mbl.is og Morgunblaðsins, fór á stjá og tók meðfylgjandi myndir og myndbönd af örtröðinni.

Tómlegt var um að lítast í hillunum í Bónus í …
Tómlegt var um að lítast í hillunum í Bónus í Naustahverfi þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði. mbl.is/Þorgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert