Enn gætir ósamræmis í svörum ráðuneyta og stofnana þegar kemur að veitingu upplýsinga um stöðu nýs meðferðarheimilis, sem átti að reisa í Garðabæ.
Í mars 2024 virðist hafa verið tekin ákvörðun um það af hálfu Barna- og fjölskyldustofu að meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda, sem rísa átti við Vífilstaðavatn í Garðabæ yrði frekar reist í Skálatúni í Mosfellsbæ. Sérfræðingar mennta- og barnamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins voru upplýstir um þá ákvörðun, sem og starfsmaður framkvæmdasýslu ríkiseigna.
Þetta sýna tölvupóstsamskipti sem mbl.is fékk afhent frá fjármálaráðuneytinu.
Er þetta ekki í samræmi við fullyrðingar mennta- og barnamálaráðherra, en í samtali við mbl.is í síðustu viku sagði hún engar ákvarðanir hafa verið teknar um breytta staðsetningu meðferðarheimilisins. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefði aldrei upplýst fjármálaráðuneytið um slík áform.
„Við fundum einhvern póst þar sem komu fram óformlegar vangaveltur um að störukeppni á milli Garðabæjar og fjármálaráðuneytisins hefði staðið í tvö eða fjögur ár, og ekkert gerst og þá er sagt að kannski þurfi að snúa sér að einhverju öðru. En það var aldrei nein ákvörðun tekin um það og ekkert formlegt,“ sagði Ásthildur Lóa, mennta- og barnamálaráðherra, í samtali við mbl.is á föstudag.
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, sendi tölvupóst á sérfræðing mennta- og barnamálaráðuneytisins, og starfsmann hjá framkvæmdasýslu ríkiseigna þann 14. mars 2024, eða fyrir rúmlega ári síðan, þar sem fram kom að tekin hefði verið ákvörðun um að bíða ekki lengur eftir Garðabæ og að stefnt væri á að byggja meðferðarheimilið frekar í Mosfellsbæ.
Starfsmaður framkvæmdasýslunnar svaraði og minntist á að fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytisins fengi einnig póstinn og væri því upplýstur. „...ég lít svo á að þetta er sameiginleg ákvörðun MRN og BOFS, þið staðfestið,“ sagði starfsmaðurinn í svari sínu. Vísaði hann þar til mennta- og barnamálaráðuneytisins og Barna- og fjölskyldustofu.
Sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu svaraði og fór afrit einnig til sérfræðings í fjármálaráðuneytinu.
„Staðfesti sameiginlegan skilning á breyttri staðsetningu meðferðarheimilisins,“ sagði sérfræðingurinn.
Í nóvember 2023 hafði sami sérfræðingur sent póst á starfsfólk sömu stofnana og tóku þátt í póstsendingunum, þar sem hann sagði að dráttur á málum í Garðabæ væri „kominn út fyrir öll mörk“ og að hann og Funi hefðu rætt það af alvöru að færa heimilið yfir í Skálatún. Þannig mætti spara fjármuni í lóðaverði og hægt væri að samnýta ýmsa þætti með öðrum stofnunum sem til stendur að verði í Skálatúni. Virðist það vera í fyrsta skipti sem hugmynd um nýja staðsetningu er viðruð á milli ráðuneyta og stofnana.
Þann 23. október 2024 virðist svo sem fyrirspurn um málið hafi borist til fjármálaráðuneytisins og upplýsti sérfræðingur um stöðuna. Að gert hefði verið ráð fyrir því að hætt hefði verið við uppbygginguna við Vífilstaði. Gerðar hefðu verið athugasemdir við það sem kom fram í samningnum, að verið væri að fara fram á byggingaréttargjöld vegna úthlutunar á lóð undir almannaþjónustu. Það hefði almennt ekki verið gert. Samtal hefði átt sér stað við Garðabæ um að útfæra þetta með öðrum hætti en áður en lausn var komin í málið hefði verið upplýst um horft væri frekar til Skálatúns.
Þann 5. mars síðastliðinn sendi svo sami sérfræðingur hjá fjármálaráðuneytinu póst til verkefnastjóra hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu þar sem fram kemur að það hafi einnig verið áréttað af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytisins á fundi að uppbygging ætti frekar að fara fram í Skálatúni í ljósi seinkunar á málinu. Fjármálaráðuneytið hafi því litið svo á að stefnubreyting hefði orðið og því hefði viðræðum við Garðabæ um greiðslufyrirkomulag á lóðinni ekki verið lokið.
Viljayfirlýsing um byggingu nýs meðferðarheimilis, fyrir börn með fjölþættan vanda, við Vífilstaðavatn í Garðabæ, var undirrituð í desember árið 2018. Þá var gert ráð fyrir að framkvæmdir hæfust árið 2020 og vonir bundar við að þeim lyki sama ár.
Ákvörðun um byggingu nýs meðferðarheimilis var reyndar tekin árið 2015. Var þá verið að bregðast við ábendingu ríkisendurskoðunar sem gerði úttekt á stöðu barnaverndarmála á Íslandi. Talað var um að þar til nýtt meðferðarheimili yrði sett á laggirnar yrði þessum hópi barna sinnt á meðferðarheimilinu Háholti í Skagafirði. Háholti var hins vegar lokað árið 2017.
í mars 2025 er enn lítið að frétta af umræddu meðferðarheimili og úrræðaleysið aldrei verið meira, líkt og mbl.is hefur áður greint frá.
Í svari mennta- og barnamálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is um stöðuna á byggingu nýs meðferðarheimilis, sem barst í febrúar, sagði að aldrei hefði náðst samkomulag um fyrirhugað meðferðarheimili í Garðabæ eða staðsetningu þess. Sá möguleiki væri þó enn fyrir hendi að það myndi á endanum rísa í Garðabæ, en áform um byggingu þess væri hluti af heildarendurskoðun þjónustu við börn með fjölþættan vanda.
Komu þessi svör ráðuneytisins Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra í Garðabæ, spánskt fyrir sjónir. Taldi hann að málið væri í farvegi hjá bæði mennta- og barnamálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Staðsetning heimilisins hefði verið klár áður en viljayfirlýsingin var undirrituð. Sagði hann að samtal hefði staðið yfir vegna útfærslu á gatnagerðargjöldum og að ýtt hefði verið við fulltrúum fjármálaráðuneytisins að minnsta kosti í tvígang, án þess að svör hefðu borist.
Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is um stöðu málsins, fyrr í þessum mánuði, sagði að ekkert hefði verið unnið að samningi um úthlutun lóðar í Garðabæ undir fyrirhugað meðferðarheimili frá árinu 2023. Enda hefði mennta- og barnamálaráðuneytið upplýst fjármálaráðuneytið um það í nóvember 2023 að til stæði að færa verkefnið yfir í Skálatún í Mosfellsbæ.
Þetta var bæjarstjórinn í Garðabæ hins vegar aldrei upplýstur um og hefur hann staðið í þeirri meiningu að meðferðarheimilið myndi rísa við Vífilstaðavatn.
Í svari fjármálaráðneytisins sagði að ráðuneytið hefði talið að mennta- og barnamálaráðuneytið myndi upplýsa sveitarfélagið, enda hefði fjármálaráðuneytið ekki staðið að upphaflegri viljayfirlýsingu.
Í samtali við mbl.is í síðustu viku sagði Almar það mjög sárt að þurfa að lesa um þessa ákvörðun í fjölmiðlum.
„Viljayfirlýsing árið 2018 var upphaf málsins og þá gerum við ráð fyrir því ef málið dettur niður að það sé þá klárað á þann hátt. Ég hvet þessi tvö ráðuneyti til að tala betur saman og hafa það þá skýrt hver á að eiga samskiptin við sveitarfélagið,“ sagði Almar.
Öllum þessum árum og tölvupóstsamskiptum síðar virðist ekkert hafa þokast hvað varðar byggingu nýs meðferðarheimilis fyrir börn með fjölþættan vanda. Enginn virðist í raun vita hvar heimilið mun rísa, enda eru svörin mismunandi eftir því hver er spurður.
Í samtali við mbl.is í byrjun mars sagði áðurnefndur Funi, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, að mikilli undirbúningsvinnu í tengslum við byggingu og skipulag heimilisins væri þó lokið. Þá sagði hann einnig að áframhaldandi vinna strandaði á því að staðsetninguna vantaði. Hann minntist þá ekki á að ákvörðun hefði verið tekin um að færa verkefnið yfir í Skálatún í Mosfellsbæ, sem gengur nú undir heitinu Farsældartún. En þar er stefnt að uppbyggingu þjónustu fyrir börn með fjölþættan vanda.
Við Farsældartúni stendur einmitt Blönduhlíð, þar sem til stóð að opna meðferðarheimili í desember síðastliðnum. Ekkert varð hins vegar af því þar sem húsnæðið stóðst ekki brunaúttekt, þrátt fyrir endurbætur. Meðferðarheimilið er nú starfrækt tímabundið á Vogi, en sá leigusamningur gildir til áramóta.
Á nýja meðferðarheimilinu, sem enginn veit hvar eða hvenær mun rísa, er gert ráð fyrir sex til átta plássum í þremur aðskildum álmum og er það ætlað unglingum sem þurfa sérhæfða meðferð á meðferðarheimili vegna alvarlegs hegðunar- og/eða vímuefnavanda. Þar munu börn á aldrinum 15-17 ára einnig geta afplánað óskilorðsbundna fangelsisdóma á forsendum meðferðarþarfar í stað fangelsisvistar og eftir atvikum setið í gæsluvarðhaldi í lausagæslu.