Truflunin yfirstaðin

600 megavött fóru á augabragði.
600 megavött fóru á augabragði. mbl.is/Þorsteinn

Truflunin í kerfum Landsnets er yfirstaðin og er kerfið komið aftur í jafnvægi. 

Þetta segir í tilkynningu á Facebook-síðu Landsnets en þar segir að yfir 600 megavött hafi farið á augabragði sem telst gríðarlega stórt högg fyrir flutningskerfið. 

Flutningskerfið skipti sér upp í Blöndu á Hólum. Segir í tilkynningunni að enginn notandi hafi verið rafmagnslaus á því svæði. Mjólkurlína 1 hafi verið leyst út og við það einangruðust Vestfirðir frá flutningskerfinu.

Varaaflsvélar í Bolungarvík fóru í gang og varð rafmagnslaust á norðanverðum Vestfjörðum um skamman tíma á meðan þær voru að ræsa sig í gang. Sunnanverðir Vestfirðir urðu ekki fyrir rafmagnsleysinu en skerðanlegir notendur duttu út. 

Varnir í kerfum Landsnets sem eru settar upp fyrir slíka viðburði virkuðu og skiptu kerfinu upp í tvo hluta, sem gerir stýringu og uppbyggingu flutningakerfis auðveldari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert