Fara í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir

Aðgerðirnar verða kynntar félagsmönnum í kvöld.
Aðgerðirnar verða kynntar félagsmönnum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjararáð Lands­sam­bands slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna (LSS) ákvað í gær að farið verði í at­kvæðagreiðslu um verk­fallsaðgerðir sjúkra­flutn­inga­manna. Aðgerðirn­ar verða kynnt­ar fé­lags­mönn­um í kvöld og er stefnt á að at­kvæðagreiðslan hefj­ist í kvöld og klárist fyr­ir há­degi á föstu­dag.

Þetta upp­lýs­ir Bjarni Ingimars­son, formaður LSS, í sam­tali við mbl.is.

Myndu hefjast 7. apríl

Seg­ir hann að ef verk­fallsaðgerðir verða samþykkt­ar muni þær hefjast 7. apríl.

Þá fundaði Lands­sam­bandið með Sam­bandi ís­lenskra sveit­ar­fé­laga í gær en þær viðræður hafa, að sögn Bjarna, gengið vel. Unnið var að áfram­hald­andi vinnu í gær og var ann­ar fund­ur boðaður á mánu­dag­inn.

Viðræður hafa hins veg­ar strandað á milli sam­bands­ins og rík­is­ins vegna launamuns milli rík­is og sveit­ar­fé­laga en þeir sem starfa í sjúkra­flutn­ing­um hjá sveit­ar­fé­lög­um eru á allt að 20% hærra kaupi en þeir sem starfa hjá rík­inu.

Eiga ekki von á frek­ari fund­um með rík­inu

Seg­ir Bjarni eng­an fund hafa verið boðaðan með rík­inu.

„Við eig­um svo sem ekk­ert von á því held­ur. Síðasti fund­ur var bara þannig að það gerðist ekki neitt. Það er ekki nema að ríkið ætli að breyta um ein­hverja stefnu í sinni nálg­un á kjara­samn­ing­un­um,“ seg­ir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert