Fara í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir

Aðgerðirnar verða kynntar félagsmönnum í kvöld.
Aðgerðirnar verða kynntar félagsmönnum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjararáð Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) ákvað í gær að farið verði í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir sjúkraflutningamanna. Aðgerðirnar verða kynntar félagsmönnum í kvöld og er stefnt á að atkvæðagreiðslan hefjist í kvöld og klárist fyrir hádegi á föstudag.

Þetta upplýsir Bjarni Ingimarsson, formaður LSS, í samtali við mbl.is.

Myndu hefjast 7. apríl

Segir hann að ef verkfallsaðgerðir verða samþykktar muni þær hefjast 7. apríl.

Þá fundaði Landssambandið með Sambandi íslenskra sveitarfélaga í gær en þær viðræður hafa, að sögn Bjarna, gengið vel. Unnið var að áframhaldandi vinnu í gær og var annar fundur boðaður á mánudaginn.

Viðræður hafa hins vegar strandað á milli sambandsins og ríkisins vegna launamuns milli ríkis og sveitarfélaga en þeir sem starfa í sjúkraflutningum hjá sveitarfélögum eru á allt að 20% hærra kaupi en þeir sem starfa hjá ríkinu.

Eiga ekki von á frekari fundum með ríkinu

Segir Bjarni engan fund hafa verið boðaðan með ríkinu.

„Við eigum svo sem ekkert von á því heldur. Síðasti fundur var bara þannig að það gerðist ekki neitt. Það er ekki nema að ríkið ætli að breyta um einhverja stefnu í sinni nálgun á kjarasamningunum,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert