Foreldrar fyrir vonbrigðum eftir fund í kvöld

Innihald fundarins var ekki það sem foreldrarnir bjuggust við.
Innihald fundarins var ekki það sem foreldrarnir bjuggust við. mbl.is/Karítas

Nokkrir foreldrar barna við Breiðholtsskóla urðu fyrir nokkrum vonbrigðum í kvöld eftir fund sem boðað var til í Gerðubergi í Breiðholti í kvöld. Bjuggust foreldrar barnanna við að á fundinum gæfist tækifæri á að ræða ástandið sem er uppi við skólann en eineltis- og ofbeldisvandi hefur þrífst við skólann undanfarin ár, líkt og Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega um. 

Hermann Austmar, faðir tveggja barna sem nýlega skiptu um skóla vegna vandans í Breiðholtsskóla, var viðstaddur fundinn. Hann segir að innihald fundarins hafi ekki verið það sem hann hafði búist við.

Snérist fundurinn að því hvernig megi betrumbæta Breiðholtið sem hverfi og gafst lítið tækifæri á að ræða þann vanda sem er uppi í Breiðholtsskóla. 

Fundurinn var ekki opinn öllum heldur var boðið sérstaklega á hann. Hermanni var ekki boðið en mætti þó þrátt fyrir það.

Beðin um að ræða leiðir til að bæta hverfið

Á meðal þeirra sem voru viðstaddir fundinn voru sviðsstjórar skóla- og frístunda-, velferðarsviðs, fulltrúar foreldrafélaga- og ráða, ungmennaráð, starfsfólk félagsmiðstöðva, menningarsendiherrar, fulltrúar samfélagslögreglunnar auk nokkurra kjörinna fulltrúa.

Segir Hermann að á fundinum hafi hópnum verið skipt upp á nokkur borð þar sem þau höfðu um 30 mínútur til að ræða jákvæða og neikvæða þætti við Breiðholtið og hvernig megi bæta hverfið.

Skiluðu hóparnir inn inn skriflegri umsögn sem kjörnir fulltrúar munu í kjölfarið „rýna í“. 

Í samræmi við þá þöggun sem á sér stað

Spurður hvort það hafi tekist að mynda einhverja umræðu um ástandið í Breiðholtsskóla í þeim hópum sem skipt var upp segir Hermann að svo hafi ekki verið. 

„Það óheppilega við þetta er að það voru væntingar um að þetta væri fundur til að ræða þessi mál [ástandið í Breiðholtsskóla],“ segir Hermann.

Segir hann það sé sérstakt, miðað við það ástand sem hefur skapast við skólann, að athygli hafi ekki verið beint að því hvernig megi leysa úr því. 

„Það er líka sérstakt hversu lítið samtal hefur átt sér stað. En það er í samræmi við þá þöggun sem á sér almennt stað um ofbeldi,“ segir Hermann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert