Forsetahjónin heimsækja Noreg og Svíþjóð

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands. mbl.is/Eyþór

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hefur þegið boð um ríkisheimsóknir til Noregs og Svíþjóðar í vor. Markmið beggja heimsókna er að styrkja enn frekar söguleg tengsl þjóðanna og vinna að sameiginlegum hagsmunum.

Þetta segir í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

Horft til sameiginlegrar menningarsögu þjóðanna

Segir þar enn fremur að hefð sé fyrir því að norrænir þjóðhöfðingjar fari sínar fyrstu ríkisheimsóknir eftir embættistöku milli Norðurlanda enda sé náið samstarf meðal þjóðanna.

Hafa Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning boðið Höllu og eiginmanni hennar, Birni Skúlasyni, til heimsóknar dagana 8.-10. apríl þar sem farið verður bæði til Óslóar og Þrándheims og mun Hákon krónprins fylgja forsetahjónunum þangað.

Halla Tómasdóttir og maður hennar Björn Skúlason.
Halla Tómasdóttir og maður hennar Björn Skúlason. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir/Skrifstofa forseta Íslands

Verður þar horft til sameiginlegrar menningarsögu þjóðanna með áherslu á bókmenntir en auk þess verða skoðuð tækifæri til aukins samstarfs, bæði í græna hagkerfinu sem og bláa hagkerfinu, þ.e. á sviði orkumála og sjávarútvegs.

Þá verða öryggis- og varnarmál til umræðu en einnig verður lögð áhersla á leiðir til að stuðla að bættri andlegri heilsu í samfélaginu.

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning.
Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning. Ljósmynd/Jorgen Gomnæs/Det Kongelige Hoff

Dýpka samskipti á sviði skapandi greina

Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning hafa svo boðið forsetahjónunum til Stokkhólms dagana 6.-8. maí.

Þar verða m.a. skoðuð tækifæri til frekara samstarfs á sviði líftækni og heilbrigðisþjónustu. Einnig verður litið til þess að dýpka samskipti þjóðanna á sviði skapandi greina með áherslu á sjónvarps- og kvikmyndagerð.

Sömuleiðis verða öryggis- og varnarmál til umræðu, þá einkum með hliðsjón af nýlegri aðild Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu og viðnámsþoli þjóðanna andspænis fjölþáttaógnun.

Þá mun opinber sendinefnd fylgja forsetahjónunum en auk þess verða með í för viðskiptasendinefndir á vegum Íslandsstofu.

Nánar verður greint frá dagskrá heimsóknanna þegar nær dregur.

Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning.
Karl Gústaf Svíakonungur og Silvía drottning. Ljósmynd/Peter Knutson/Kungehuset
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert