Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia, segir fyrirtækið, sem framleiðir ómannaða kafbáta, vera í reglulegum samskiptum við utanríkisráðuneytið en nú muni Landhelgisgæslan í fyrsta skipti kaupa kafbáta af fyrirtækinu.
Kafbátar fyrirtækisins hafa lengi verið notaðir af erlendum ríkisstjórnum, sjóherjum og landhelgisgæslu en hingað til hefur fyrirtækið aðstoðað íslensk yfirvöld af og til í sjálfboðastarfi.
„En núna er Landhelgisgæslan komin með þann möguleika að gera þetta alveg sjálfir, sjálfstætt – þegar þeir fá bátana,“ segir Stefán.
„Við erum stolt að vinna að auknu öryggi okkar á Íslandi með íslenskum yfirvöldum. Sérstaklega við þessa krítísku innviði sem við höfum, eins og neðansjávarstrengirnir okkar sem eru okkar tenging við umheiminn. Við erum búin að vinna með svo mörgum öðrum ríkisstjórnum í gegnum tíðina í að gera nákvæmlega þetta að það er frábært að geta haldið vinnunni áfram á Íslandi í góðu samstarfi við Landhelgisgæsluna og utanríkisráðuneytið.
Teledyne Gavia framleiðir ómannaða kafbáta sem geta skannað sjávarbotninn. Við það er notaður annaðhvort hliðarsónar eða svokallaðir fjölgeislamælar sem notaðir eru til að mæla hvað er á sjávarbotninum. Þannig getur kafbáturinn fylgt hlutum eins og olíupípum og köplum neðansjávar og fundið einstaka kapal, fylgt honum og tekið sónarmyndir af öllu umhverfinu þar í kring.
Gögnunum er svo komið til viðeigandi aðila, sem þurfa að fylgjast með hvað er í gangi. Þetta er til að mynda notað af herjum þegar finna þarf sprengjur á sjávarbotninum og af olíufélögum til að fylgjast með olíupípum neðansjávar.
„Í Póllandi erum við til dæmis með kúnna sem hafa fundið þúsundir sprengna, flestar frá seinni heimsstyrjöld,“ segir Stefán.
„Í þessu tilfelli mun Landhelgisgæslan nota tækið til að fylgjast með neðansjávar, hvort að allt sé í góðu með strengina okkar eða hvort einhverjum hafi dottið í hug að setja eitthvað nálægt þeim.“
Aðspurður segir Stefán fyrirtækið hafa verið stofnað út frá Háskóla Íslands en stofnandi fyrirtækisins hafi verið Hjalti Harðarson. Árið 2010 var fyrirtækið keypt af bandarísku hátæknifyrirtæki að nafni Teledyne Technologies. Fyrirtækið segir hann enn þá vera íslenskt félag með hugvit á Íslandi, eina breytingin sé að eigandinn er bandarískt félag, sem er á markaði.
„Þetta er algjörlega enn þá íslenskt hugvit, íslensk framleiðsla og íslenskt fyrirtæki.“
Aðspurður segir Stefán kafbátana alveg sjálfstýrða. Ferlinu megi í raun líkja við gervigreind.
„Við erum með staðsetningarbúnað inni í bátnum sem tekur við alls konar gögnum sem hann notar til að stýra sér sjálfur. Það sem notandi bátsins gerir er að hann býr til verkefni eða leiðsögn fyrir hann, hvað hann á að gera. Oft er það að fara og skanna ákveðið svæði, ná að halda sér fimm metrum fyrir ofan botninn, og slíkar leiðbeiningar.
Þetta gerum við allt í okkar hugbúnaði, sendum áætlunina í bátinn og hann bara gerir það sem honum er sagt. Þannig að hann tekur inn þessi gögn og keyrir verkefnin algjörlega án nokkurrar tengingar við yfirborðið.“
Það þarf þá enginn að hafa yfirsjón með kafbátnum frá yfirborðinu?
„Nei, en aftur á móti er hægt að fylgjast með á meðan hann er neðansjávar. Hann er niðri í margar klukkustundir, með eitt verkefni getur hann verið sjö klukkustundir neðansjávar. Frá yfirborðinu er hægt að senda niður það sem kallast hljóðbylgju modem, sem nota hljóð neðansjávar til að senda honum gögn og geta fengið gögn til baka.
Þessi gögn eru þó bara mjög lítil, þú ert ekki að fá myndir heldur staðfestingu frá kafbátnum um að allt sé í góðu og að hann sé að halda áfram sínu verkefni. Þannig er hægt að fylgjast með honum en ekki fá upplýsingar í rauntíma.“
Fást þær upplýsingar þá þegar hann kemur aftur á yfirborðið?
„Já, það eru aðallega sónarmyndir sem eru þó búnar þannig til að þær eru mjög líkar ljósmyndum, upplausnin á þeim er rosalega há. Það geta líka verið þrívíddarmyndir, ef við notum svokallaða fjölgeislamæla.
Svo getum við notað ljósmyndir líka, en vandamálið er að það er svo gruggugt vatnið á Íslandi að við sjáum illa í gegnum vatnið.“
Hefur samtal við utanríkisráðuneytið átt sér stað?
„Við erum í stanslausum samskiptum við utanríkisráðuneytið. Allt sem við gerum er svokallaður leyfisskyldur útflutningur, þannig að við þurfum að fá leyfi frá ráðuneytinu fyrir öllu sem við gerum.
Við höfum unnið með þeim og Landhelgisgæslunni í þessum verkefnum í gegnum tíðina. Þá höfum við bara verið í sjálfboðavinnu að aðstoða til dæmis Landhelgisgæsluna þar sem slys hafa orðið, eins og flugvélin í Þingvallavatni. Við höfum líka aðstoðað aðeins við að leita að einhverjum sprengjum eða þegar stór herskip koma og krafa er gerð um að skanna svæði.
Þannig að við höfum verið í góðu og löngu samstarfi við Landhelgisgæsluna og utanríkisráðuneytið.“
Það er þá ekki ný hugmynd að nýta kafbátana í varnarmál á Íslandi?
„Nei, mjög stór kúnnahópur hjá mér erlendis er að gera nákvæmlega þetta. Þannig að við erum með báta út um allan heim sem eru notaðir af ríkisstjórnum, sjóherjum og landhelgisgæslu.
En við höfum meira verið að aðstoða íslensk yfirvöld við og við, en núna eru þau komin með þann möguleika að gera þetta alveg sjálf, sjálfstætt, þegar þau fá bátana.“
Að sögn Stefáns mun Teledyne Gavia afhenda Landhelgisgæslunni báta en þaðan af mun hún alfarið sjá um notkun þeirra sjálf. Þá segir hann Gæsluna búa yfir mjög hæfu liði. „Þeir eru sérfræðingar á þessu sviði og munu keyra bátinn í þessu verkefni.“
„Við erum ekki í þjónustuhlutverki. Við hönnum og framleiðum bátana og seljum þá. Í þessu tilfelli eru þau að taka við bát sem var í eigu ríkisins fyrir. Hann var notaður af háskólanum áður en nú er verið að færa hann yfir til Landhelgisgæslunnar. Við erum þó að fara í uppfærsluverkefni á honum í samstarfi við Landhelgisgæsluna. Svo verður hann afhentur þeim.“
Þannig að ykkar innkoma á þessum tímapunkti er að gera bátinn upp?
„Já, við erum að taka hann og koma honum í eins gott form og við getum. Hann var aðallega notaður af háskólanum við hafrannsóknir, sem er aðeins öðruvísi en það sem hann verður notaður í núna. Þannig að við erum að bæta við hann eiginleikum þannig að hann sé betur tilfallinn til að klára þetta verkefni.“