Útlit er fyrir að engin ker hafi skemmst í álveri Norðuráls á Grundartanga eftir að eldur kom upp í álverinu í gærkvöldi. Straumur komst á húsin fljótlega eftir að eldurinn kom upp að sögn Sólveigar Bergmann upplýsingafulltrúa fyrirtækisins.
„Við vorum að keyra upp strauminn á kerjunum í nótt,“ segir Sólveig.
Eru kerin óskemmd?
„Já, svo virðist vera að þetta hafi farið ágætlega,“ segir Sólveig.
Eldurinn kom upp laust fyrir hálf níu í gærkvöldi og að sögn Sólveigar var starfsemin komin á gott ról um fimmleytið í morgun.
Að sögn hennar skemmast ker að jafnaði eftir þrjá til fjóra klukkutíma án straums. Aflið fór af kerjunum um skamma stund en fljótlega tókst að hefja það ferli að setja straum á að nýju. Helgast það ekki síst af því að eldurinn sem upp kom var lítill.
„Í dag höldum við áfram að framleiða ál en samhliða erum við að greina það hvernig það gerðist að rafmagnsinntakið fór,“ segir Sólveig.
Annar kerskálinn var tæmdur eftir að eldurinn kom upp. Hann er sagður hafa verið lítill en slökkvilið þurfti að bíða eftir að olían brynni upp áður en hægt var að notast við dælu.