Kosið verður aftur á milli Silju Báru R. Ómarsdóttur og Magnúsar Karls Magnússonar í rektorskjöri til Háskóla Íslands þar sem enginn frambjóðanda fékk meirihluta greiddra atkvæða eins og kveðið er á um í reglum Háskóla Íslands.
Kennarar og nemendur við Háskóla Íslands geta kosið aftur á milli Silju og Magnúsar frá klukkan 9.00 miðvikudaginn 26. mars og til klukkan 17.00 fimmtudaginn 27. mars.
Í framboði voru Björn Þorsteinsson prófessor, Ganna Pogrebna prófessor, Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og samfélags og prófessor, Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og dósent, Magnús Karl Magnússon prófessor, Oluwafemi E Idowu prófessor og Silja Bára R. Ómarsdóttir prófessor.
Á kjörskrá voru 14.557 einstaklingar, þar af 1.752 starfsmenn og 12.805 nemendur. Alls greiddu 89% starfsmanna atkvæði í kosningunum og 37% nemenda. Kosningaþátttaka í heild sinni var 43,5%.
Atkvæði starfsfólks vógu 70% í kjörinu og atkvæði nemenda 30%. Reyndist Magnús Karl hafa fengið 33,6% atkvæða í kjörinu, en Silja Bára 29,3%.