Geymsla koldíoxíðs í jörðu þarf að vera í samræmi við reglur um vernd grunnvatns auk þess sem geymslan má ekki raska ástandi grunnvatns og skal samræmast umhverfismarkmiðum laga um stjórn vatnamála.
Á þessu er skerpt með breytingum á reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns og reglugerðar um geymslu koldíoxíðs í jörðu sem umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra hefur undirritað, en greint er frá þessu í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
„Föngun og binding kolefnis í jarðlög er á meðal þeirra aðgerða sem brýnt er að ráðast í til að vinna gegn loftslagsbreytingum. Þetta hefur ítrekað verið viðurkennt af alþjóðlega vísindasamfélaginu, meðal annars af milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Mikilvæg skref hafa verið stigin af íslenskum frumkvöðlum í þessum efnum og brýnt að starfsemin hvíli á skýrum reglum til framtíðar,“ er haft eftir Jóhanni Páli Jóhannssyni, ráðherra málaflokksins, í tilkynningunni.
Föngun, niðurdæling og binding koldíoxíðs hefur verið talsvert til umræðu hér á landi undanfarin ár. Þannig hafa stórtæk áform dótturfélags OR, Carbfix, meðal annars verið talsvert til umræðu, en félagið áformar að dæla niður koldíoxíð í Straumsvík undir nafninu Coda terminal. Er þar áformað að sigla með koldíoxíð í fljótandi formi til landsins og dæla honum ofan í jörðina. Þá hefur Carbfix einnig skrifað undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu og rekstur athafnarsvæði undir slíka starfsemi í Ölfusi.
Íbúar í Hafnarfirði hafa lýst yfir áhyggjum af málinu og er nú óvíst að uppbyggingaráformin í Straumsvík verði lögð fyrir bæjarstjórn. Hafa forsvarsmenn bæjarins meðal annars vísað til óvissu um umhverfisþætti og ávinning nærsamfélagsins af slíkri niðurdælingu.