Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra átti fund með Hans Leijtens, framkvæmdastjóra Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu (Frontex). Framkvæmdastjórinn mætti til Reykjavíkur til að eiga samtal við dómsmálaráðherra og starfsfólk Ríkislögreglustjóra.
Heimsókninni er fyrst og fremst ætlað að stuðla að frekari umræðu um málefni landamæra á Íslandi, að því er segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins.
„Frontex hefur reynst Íslandi mikilvægt í samstarfi á landamærunum. Evrópa hefur á undanförnum árum unnið að því að styrkja ytri landamæri sín og Ísland getur ekki verið undanskilið, enda aðili að Schengen. Evrópusambandið er um margt á undan okkur og því nauðsynlegt að eiga í traustu samstarfi við Frontex áfram,“ er haft eftir dómsmálaráðherra í tilkynningunni.
„Jafnframt fannst mér gott að að heyra viðhorf Frontex til þessara mála: fólk sem leitar hingað eru ekki óvinir. Hins vegar eru mörk á því hversu mörgum við getum tekið við og hverjir mega vera hérna. Þær reglur ber að virða.“
Þá kemur fram að um þessar mundir fagni stofnunin 20 ára afmæli. Auk þess séu 40 ár frá undirritun Schengen-samningsins og fimm ár frá stofnun stöðuliðs Frontex (e. standing corps).
„Frontex gegnir samhæfingarhlutverki á ytri landamærum Evrópu. Í því felst að aðstoða ríkin við landamæravörslu og auka getu þeirra til að bregðast við ógnum og álagi. Meðal hlutverka þess er að afla gagna sem nýtast í svokallaðri áhættugreiningu (e. risk analysis), sem veitir löggæsluaðilum stöðumynd af helstu ógnum sem bregðast þarf við á landamærunum og nýtist til að draga úr neikvæðum afleiðingum þeirra.
Frontex hefur einnig umsjón með fyrrnefndu stöðuliði sem aðstoðar við landamæravörslu. Um tvö þúsund manns frá Schengen-aðildarríkjum starfa í stöðuliðinu. Stærsta framlag Íslands til stöðuliðsins hefur verið framlag Landhelgisgæslunnar, sem hefur frá árinu 2010 lagt til bæði skip og eftirlitsflugvél, ásamt áhöfn, í sameiginleg verkefni á vegum Frontex. Stofnunin hefur ekki síst verið mikilvægur samstarfsaðili í framkvæmd fylgda og heimferða (e. repatriation and return) hér á landi. Frontex hefur lagt áherslu á samvinnu ríkja í brottflutningum og aukið við sameiginlegan brottflutning tveggja eða fleiri ríkja, með tilheyrandi hagræðingu og tímasparnaði,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að frá árinu 2023 hafi Ísland lagt til einn starfsmann í langtímaverkefni, a.m.k. í tvö ár. Þó hafi samkvæmt sérstöku samkomulagi við Frontex meginframlag Íslands verið í skammtímaverkefni, sem séu allt að 4 mánuðir, áhafnar Landhelgisgæslunnar á eftirlitsflugvélinni TF-SIF. Auk þess hafi lögreglumenn og landamæraverðir á undanförnum árum sinnt skammtímaverkefnum.
Haustið 2024 sendi Ísland í fyrsta skipti landamæravörð í verkefni á vegum stöðuliðsins. Vegna tækniþróunar við landamæragæslu hefur Frontex nú minni þörf fyrir eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF en áður. Því má gera ráð fyrir að á tímabilinu 2026-2030 muni framlag Íslands fyrst og fremst vera landamæraverðir sem sinna skammtímaverkefnum fyrir Frontex.