Verslunarstjóri Melabúðarinnar hefur svarað yfirlýsingu ASÍ um að verslunin hafi hafnað þátttöku í verðlagseftirliti ASÍ, en sambandið segir Melabúðina að meðaltali 43% dýrari en Bónus. Sakar verslunarstjórinn ASÍ um að hnýta í litla hverfisverslun, sem bjóði upp á allt aðra þjónustu og vöruúrval en stórverslanir, frekar en að beina spjótum sínum að stærri verslununum sem hafi mest að segja um dagvörumarkaðinn.
Í tilkynningu ASÍ í morgun kom fram að Melabúðin hefði hafnað þátttöku í verðlagseftirlitinu og hvatti sambandið almenning til að senda inn verð úr versluninni í gengum smáforritið Nappið.
„Að mati verðlagseftirlitsins er það réttur almennings að vita hve dýr verslun er áður en lagt er af stað til innkaupa og eru því birtar hér niðurstöður á þessum síðasta verðsamanburði sem framkvæmdur var í versluninni,“ sagði í tilkynningunni.
Dýrleif Birna Sveinsdóttir, verslunarstjóri Melabúðarinnar, sendi í kjölfarið frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að Melabúðin sé sérverslun sem „hefur í gegnum tíðina ekki verið hluti af verðlagseftirliti ASÍ, enda er rekstur einnar hverfisverslunar í vesturbæ Reykjavíkur allt annars eðlis en stórra verslanakeðja.“
Fer hún því næst yfir að Melabúðin sé nokkuð annars eðlis en stóru verslunarkeðjurnar. „Melabúðin sérhæfir sig í fjölbreyttri matvöru, þar á meðal kjöti og fiski, sem unnin er á staðnum af fagfólki og eftir óskum viðskiptavina. Ferskleiki, gæði og persónuleg þjónusta eru í forgrunni og gera Melabúðina einstaka í íslensku verslunarumhverfi, sem samhliða býður upp á dagvörur sem spara fjölskyldum sporin í innkaupum fyrir heimilin.“
Segir Dýrleif að samanburður á verði án tillits til gæða, þjónustu og vöruúrvals dragi upp skakka mynd sem ekki taki tillit til sérstöðu sérverslana.
Þá ítrekar hún að starfsfólki ASÍ hafi ekki verið vísað á dyr, en að um þetta fyrirkomulag hafi ríkt skilningur. „Þessi háttur er þekktur í öðrum geirum atvinnulífsins, eins og fjölmiðlum, sem sumir kjósa að taka ekki þátt í samræmdum mælingum á notkun miðlanna þar sem stjórnendur þeirra telja mælingarnar gefa skakka mynd af markmiðum rekstrarins,“ kemur fram í tilkynningunni.
Að lokum segir þar að óskiljanlegt sé að „starfsfólk ASÍ kjósi á þessum tímapunkti að hnýta í litla hverfisverslun í Reykjavík, vega að hagsmunum starfsfólks og þjónustu við fjölskyldur í stað þess að beina spjótum sínum að þeim sem öllu ráða á dagvörumarkaði.“