Hagsmunaaðilar í iðnaði telja að leyfi Enic/Naric-skrifstofunnar á Íslandi sem gefur pólskum pípulagningamanni meistararéttindi á Íslandi án þess að hafa farið í meistaraskóla leiði til mismununar þar sem Íslendingar fái ekki slík réttindi nema eftir meistaraskólanám. Slík framkvæmd skapi mismunun, brjóti jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og muni hafa víðtæk áhrif á iðnnám hérlendis.
Samtök iðnaðarins, Iðnmennt, Tækniskólinn og Félag iðn- og tæknigreina hafa sent fjórum ráðuneytum bréf þar sem vakin er athygli á því að upp sé komin alvarleg staða vegna framkvæmdar Enic/Naric-skrifstofunnar vegna mats á erlendu iðnmeistaranámi til að starfa í löggiltri iðngrein hérlendis.
Í svari Enic/Naric kemur fram að umrædd afgreiðsla hafi verið send Iðunni fræðslusetri til umsagnar og var niðurstaða Iðunnar sú að menntun og reynsla viðkomandi væri sambærileg þeim hæfniskröfum sem gerðar eru við útgáfu meistarabréfa hér á landi og á grundvelli þessarar umsagnar hafi viðkomandi fengið jákvætt svar við umsókn sinni.
Eftir að Félag pípulagningameistara kvartaði til Iðunnar yfir leyfisveitingunni barst bréf til Enic/Naric frá framkvæmdastjóra Iðunnar þar sem umsögn um mat á fyrra námi viðkomandi var afturkölluð.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.