Reiknaði með meiri vaxtalækkun

Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir tilefni hafa verið til meiri lækkunar stýrivaxta en var ákveðið.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Verða meginvextir bankans því 7,75%.

Verið að hækka raunvexti

„Öfugt við þessar greiningardeildir, þá reiknaði ég með meiri vaxtalækkun. Ég reiknaði með 50 punktum allavega,“ segir Finnbjörn í samtali við mbl.is.

„Vegna þess að með því að fara í 25 punkta þá er verið að hækka raunvexti í landinu og raunvextir eru bara allt, allt of háir.“

„Alveg klárt“ að óvissa sé fram undan

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands segir að verðbólguþrýstingur sé enn til staðar, sem kalli á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við það bætist svo óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.

Finnbjörn segir það vera „alveg klárt“ að óvissa sé fram undan. Sjálfur lítur hann þó á að óvissan snúi að því hvort að það verði um samdrátt í samfélaginu að ræða.

„Samanber það að ferðaþjónustan er jafnvel að spá einhverjum samdrætti og þess háttar og í samdrætti er ekki mjög gott að vera með mjög háa raunvexti. Þannig að ég reiknaði frekar með því að þeir myndu hugsa sér að vera eins og góður bóndi og byggja undir framtíðina.“

Ekki gott að búa til samdrátt með of háum vöxtum

Aðspurður um sína spá á framhaldið segist Finnbjörn ekki vita hve upptekin peningastefnunefndin sé af varúðarráðstöfunum sínum en nefnir að honum finnist að nefndin þurfi að velta fyrir sér í hverju varúðin sé fólgin.

„Vegna þess að það er ekki gott að búa til samdrátt með allt of háum vöxtum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert