Höfuðborgarbúar hafa minnkað verulega það magn sem þeir henda í ruslið síðustu ár.
Magnið af því sem hver einstaklingur hendir af matarleifum, pappír, plasti og blönduðum úrgangi fór úr 224 kg á mann árið 2020 niður í 187 kg árið 2024. Ef einungis er horft til blandaða úrgangsins fór hann úr 173 kg á mann niður í 99 kg.
Þetta kemur fram í tilkynningu Sorpu. Þar segir að fólk hafi tekið fjórflokkuninni vel.
Þegar samsetning úrgangs í blönduðum úrgangstunnum var skoðuð kom í ljós að matarleifar höfðu farið úr 60 kg á mann árið 2022 niður í tæp 18 kg á síðasta ári. Plast fór úr tæpum 22 kg niður í rúm 13 kg á mann á sama tímabili og pappírinn fór úr tæpum 13 kg niður í tæp 8 kg.
Í tilkynningunni segir að 98% í matarleifatunnunum sé rétt flokkað.
„Lífræni úrgangurinn fer í gas- og jarðgerðarstöðina GAJU en helsti ávinningurinn af því að vinna matarleifar í GAJU er verulegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda.“