Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur ákveðið að sameina heilsugæslustöð HSN á Dalvík og starfsstöð HSN í Fjallabyggð frá og með 1. september. Markmiðið er að efla mönnun heilbrigðisfagfólks á svæðinu og þjónustu við íbúa.
„Þessi ákvörðun er ekki tekin í hagræðingarskyni en við teljum að með þessari skipulagsbreytingu verði til öflugri eining sem betur getur tekist á við krefjandi rekstrarumhverfi í heilbrigðisþjónustu. Við vonumst til að hún auðveldi okkur að laða að fólk til starfa og þar með efla þjónustu við íbúa“, segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN.
„Mikil starfsánægja hefur ríkt bæði á Dalvík og í Fjallabyggð og verður því spennandi að sjá þessar öflugu einingar sameinast og sjá hvaða hugmyndir og kraftur fæðast úr því, ávallt með hæsta þjónustustig að leiðarljósi.“
Með sameiningunni er stuðlað að öflugri einingu sem auðveldar mönnun fagfólks. Einnig eykur stærri rekstrareining sveigjanleika í starfseminni með flæði starfsfólks á milli starfsstöðva. Þá er sameiningunni ætlað að styðja við forsendur til teymisvinnu sem ætti að efla samvinnu og miðlun þekkingar meðal starfsfólks.
Reynsla HSN hefur sýnt að stærri starfsstöðvar, eins og á Húsavík og Sauðárkróki, laða frekar að sér lækna. Þetta er að hluta til vegna þess að þar er stærri hópur lækna sem starfar saman, sem flestum þykir kostur og auðveldar móttöku sérnámsgrunnslækna og lækna í sérnámi í heimilislækningum.
Hjá HSN eru nú 14 læknar í sérnámi í heimilislækningum en þar af enginn í Fjallabyggð eða á Dalvík. Reynslan sýnir að þegar nemar koma í starfsnám hefur það jákvæð áhrif á framtíðarmönnun á þeim stað. Sömu rök liggja að mönnun annarra fagstétta.
HSN í Fjallabyggð rekur heilsugæslu og ódeildarskipt sjúkrahús á sama stað, auk heilsugæslu á Ólafsfirði. Á Dalvík er starfrækt heilsugæslustöð fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar.
Hjá sameinaðri starfseiningu munu starfa rúmlega 80 manns í 50 stöðugildum sem þjónustar um 4.150 íbúa á öllu svæðinu. Með sameiningunni verður einn yfirhjúkrunarfræðingur svæðis og einn yfirlæknir yfir sameinaðri starfseiningu, einn deildarstjóri yfir sameinaðri heilsugæslu á svæðinu og áfram verður deildarstjóri yfir hjúkrunar- og sjúkradeild í Fjallabyggð.
Íbúar á svæðinu þurfa ekkert að aðhafast vegna þessara skipulagsbreytinga.