Ríkið mun taka við framkvæmd og ábyrgð á fjármögnun sérhæfðrar þjónustu við börn með fjölþættan vanda sem búsett eru utan heimilis. Tveir ráðherrar og fulltrúar sveitarfélaga skrifuðu undir samkomulag um þessa breyttu ábyrgðaskiptingu ríkis og sveitarfélaga nú fyrir stuttu.
Á sama tíma var gert samkomulag um breytt fyrirkomulag milli ríkis og sveitarfélaga vegna uppbyggingar hjúkrunarheimila.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að breytingarnar séu liður í að einfalda verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og styrkja fjárhag sveitarfélaga og taka gildi um mitt þetta ár.
Morgunblaðið og mbl.is hafa ítarlega fjallað um málefni barna með fjölþættan vanda undanfarið, en mikla athygli hefur meðal annars vakið skortur á meðferðarúrræðum og misvísandi svör um næstu skref í þeirri vegferð og að börn séu vistuð í fangageymslum á Flatahrauni. Hefur Umboðsmaður Alþingis meðal annars komist að því að brotið sé á réttindum barna sem vistuð hafa verið í fangelsisgeymslum.
Í tilkynningu Stjórnarráðsins kemur fram að þau Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambandsins, hafi undirritað samkomulagið.
„Í samkomulaginu felst að ríkið tekur að sér framkvæmd og ber ábyrgð á fjármögnun sérhæfðrar þjónustu við börn með fjölþættan vanda sem búsett eru utan heimilis. Fyrirkomulag og innihald þjónustu við börn með fjölþættan vanda hefur lengi verið umfjöllunarefni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og er breytt ábyrgðaskipting í samræmi við tillögur starfshóps á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra sem birtar voru í áfangaskýrslu í september 2024. Börnin sem um ræðir hafa miklar stuðningsþarfir og þarfnast meðal annars tímabundinnar vistunar utan heimilis þar sem veitt er meðferð vegna vanda barns. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi viðkvæmur hópur fái þjónustu við hæfi og jafnræðis sé gætt til að veita slíka þjónustu,“ segir í tilkynningunni.
Samhliða þessu undirrituðu þau Daði Már, Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, Alma Möller heilbrigðisráðherra, Heiða og Arnar Þór Sævarsson samkomulag vegna uppbyggingar hjúkrunarheimila. Er fallið frá fyrra fyrirkomulagi þar sem sveitarfélög báru 15% stofnkostnaðar við hjúkrunarheimili. Verður þeim nú heimilt að innheimta gatnagerðargjöld vegna byggingar slíkra heimila.
„ Þegar sveitarfélög úthluta lóðum undir hjúkrunarheimili verður það áfram gert án lóðarleigu og án byggingarréttargjalda. Settur verður á fót stýrihópur sem falið verður að útfæra nánar skiptingu á eldri hjúkrunarheimilum milli ríkis og sveitarfélaga en gengið er út frá því að þar sem um sameiginlegt eignarhald ríkis og sveitarfélaga er að ræða muni eignarhlutur sveitarfélags í hjúkrunarheimilum færast yfir til ríkis, með sama hætti og þegar eignir ríkisins hafa færst til sveitarfélaga vegna breyttrar verkaskiptingar,“ segir í tilkynningunni.
Tekið er fram að þessar breytingar hafi ekki áhrif til breytinga á tekjustofnum sveitarfélaga né framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. „Um er að ræða aðgerðir til að einfalda verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og styrkja fjárhag sveitarfélaga.“