Stefán Blackburn sem nú er einn þeirra sem eru í varðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglu á manndrápi, frelsissviptingu og fjárkúgun í síðustu viku, var með batahópi Tolla Morthens á Litla Hrauni í lok síðasta árs.
Hlutverk hópsins þennan daginn var að hvetja fanga til þátttöku í öndunaræfingum og hugleiðslu og var Stefán hluti af tíu manna hópi sem kom á Litla Hraun 30. nóvember. Tolli hefur farið fyrir Batahúsinu sem hefur aðstoðað fyrrum fanga en einnig farið fyrir hópi fyrrum fanga sem heimsótt hafa núverandi fanga.
Samkvæmt heimildum mbl.is bar á kvörtunum frá föngum sökum þess að Stefán væri í hópnum. Höfðu þeir á orði að þó að menn hafi minna heyrt um vímuefnaneyslu Stefáns upp á síðkastið væri það altalað að hann hefði ekki gefið fyrri lífsstíl alfarið upp á bátinn.
Tolli vildi ekki tjá sig aðspurður um það hvernig ferlið sé í tengslum við það hvaða menn í batahópi Tolla fara með í ferðir í fangelsi landsins.
Ómar Vignir Valdimarsson, deildarstjóri á Litla-Hrauni, vildi ekki tjá sig um málefni Stefáns en segir að almennt þurfi menn sem komi í sjálfboðavinnu inn í fangelsið að veita leyfi fyrir bakgrunnsathugun.
„Ef það eru nýleg mál eða grunur um neyslu þá er þeim hafnað að koma inn í fangelsið. Þeir sem eru taldir virkir í glæpum eru ekki heimilaðir í fangelsið að Litla-Hrauni,“ segir Ómar.
Stefán er þekktur ofbeldismaður og hefur margsinnis komist í kast við lögin vegna ofbeldismála, fjársvika og frelsissviptingar. Síðast var hann dæmdur í fangelsi árið 2014 þegar hann var sakfelldur í Stokkseyrarmálinu svokallaða. Þar var hann sakfelldur fyrir frelsissviptingu og ofbeldi í garð tveggja manna ásamt fjórum öðrum. Afbrotin þóttu einkar ógeðfelld og sættu mennirnir barsmíðum og pyntingum. Hlaut Stefán sex ára dóm í málinu.
Í desember hlaut Stefán svo þriggja mánaða dóm fyrir að hafa í janúar og febrúar árið áður ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna. Í því máli játaði Stefán brot sín skýlaust.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, segir að félagið sé mjög passasamt á hverja félagið velur og hleypir inn í fangelsin.
„Í þessu tilfelli sem um ræðir þá er um að ræða einstakling sem ekki kom inn á vegum Afstöðu og hafa fangelsisyfirvöld sagt að það hafi verið mistök og hafa gripið til aðgerða og gerðu strax fyrir síðustu áramót. Slík mistök eiga ekki að geta gerst aftur,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann tekur þó fram að jafningjastuðningur geti verið mikilvægur frá mönnum sem hafa lokið afplánun. „Jafningjastuðningur og ráðgjöf er eitt áhrifamesta úrræði sem til er og er verið að auka allt slíkt starf alls staðar í löndunum í kringum okkur sem og hérlendis en það þýðir að það þarf að gera þetta faglega,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann segir að Fangelsismálastofnun, Afstaða og Vernd hafi rætt þessi mál undanfarna mánuði og muni koma að frekara samtali um að móta reglur um sjálfboðaliðastarf í fangelsunum til frambúðar.