VÍS hyggst feta í fótspor Varðar og hefur bætt við tryggingarvernd fyrir þolendur ofbeldis í nánum samböndum í heimilistryggingu sína. Með því hafa þau sem verða fyrir slíku ofbeldi möguleika á að sækja fjárhagslegar bætur í tryggingu sína.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS. Þar segir að auk þess verði tryggt að þau sem fá greiddar bætur úr tryggingarverndinni eigi einnig rétt á áfallahjálp til að takast á við og vinna úr reynslunni.
„Þetta er lofsvert framtak hjá Verði og við hjá VÍS vorum öll einhuga um að fylgja þessu strax eftir. Í mínum huga er þetta ekki samkeppnismál heldur miklu frekar velferðarmál og við viljum bjóða okkar viðskiptavinum sambærilega vernd. Við höfum átt í góðum samtölum við Kvennaathvarfið og munum njóta þeirra leiðsagnar áfram við að fullmóta útfærslu tryggingarverndarinnar. Við viljum að verndin nái til allra, óháð kyni, enda er verndinni ætlað að ná til allra sem verða fyrir ofbeldi í nánu sambandi,“ er haft eftir Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, forstjóra VÍS, í tilkynningu.
„Með aðkomu fagaðila í þessum málaflokki er stigið mikilvægt skref því þannig er hægt að fá staðfestingu á aðstæðum þolanda, sem nægir til að hægt sé að sækja bætur, án aðkomu lögreglu eða dómstóla. Breytingin hefur nú þegar tekið gildi og hefur hún ekki áhrif á verð heimilistrygginga. Viðskiptavinir VÍS þurfa því ekkert að gera og nær verndin nú þegar til allra sem eru með heimilistryggingu. Unnið er að því að útvíkka þjónustuna tengda tryggingunni og verður það útfært á næstu vikum/mánuðum í samráði við fagaðila,“ segir í tilkynningu.