Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, mun segja af sér. Þetta kemur fram í viðtali sem Ríkisútvarpið tók við hana og verður birt í kvöld.
Ríkisútvarpið greindi frá því fyrr í kvöld að Ásthildur átti barn með 15 ára gömlum pilti þegar hún var 22 ára gömul, eða fyrir rúmlega þremur áratugum.
Ásthildur átti í ástarsambandi við drenginn, Eirík Ásmundsson, en hún kynntist honum þegar hún leiddi unglingastarf í trúarsöfnuðnum Trú og líf í Kópavogi. Drengurinn hafði leitað þangað þar sem aðstæður heima fyrir voru erfiðar.
Barnsfaðir Ásthildar segir að hún hafi tálmað sig í en einnig krafið hann um meðlög í 18 ár. Ásthildur hafnar því að hafa tálmað hann í viðtali við Ríkisútvarpið.
Ástarsambandið hófst þegar hann var fimmtán ára gamall og fljótlega eftir að það hófst varð Ásthildur ólétt. Þegar barnsfaðirinn var 16 ára og Ásthildur 23 ára þá eignuðust þau saman son.
Fram kemur að Ásthildur Lóa hafi fyrstu mánuðina átt frumkvæði að því að finna tíma fyrir feðgana til að hittast. Eftir að hún kynntist eiginmanni sínum hafi það þó breyst að sögn Eiríks.
Hann leitaði til dómsmálaráðuneytisins og fjölskylduþjónustu kirkjunnar og fór fram á það að fá að umgangast drenginn.
Fréttastofa RÚV kveðst hafa fengið gögn sem staðfesta það og þar kemur líka fram að Ásthildur Lóa hafi hafnað honum um umgengni.
Eiríkur kveðst hafa fengið samþykktar tvær klukkustundir í mánuði með drengnum, á heimili Ásthildar Lóu og eiginmanns hennar. Það jafngildir einum sólarhring á ári.
Forsætisráðuneyti Kristrúnar Frostadóttur fékk erindi um þetta mál á sitt borð fyrir viku síðan, frá aðstandanda barnsföður ráðherra, samkvæmt RÚV. Starfsmenn ráðuneytisins fullvissuðu sendanda um að öll erindi væru trúnaðarmál.
Hins vegar fékk Ásthildur Lóa upplýsingar um inntak erindisins og hver það var sem sendi það. Hún bæði hringdi í viðkomandi og mætti á heimili hans í kjölfarið.
Fréttin hefur verið uppfærð.