Barnamálaráðherra átti barn með 15 ára dreng

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Karítas

Ásthildur Lóa Þórsdóttir barnamálaráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur átti barn með 15 ára gömlum pilti þegar hún var 22 ára gömul, eða fyrir rúmlega þremur áratugum.

Ríkisútvarpið greinir frá.

Ásthildur átti í ástarsambandi við drenginn, Eirík Ásmundsson, en hún kynntist honum þegar hún leiddi unglingastarf í trúarsöfnuðnum Trú og líf í Kópavogi. Drengurinn hafði leitað þangað þar sem aðstæður heima fyrir voru erfiðar.

Barnsfaðir Ásthildar segir að hún hafi tálmað sig í en einnig krafið hann um meðlög í 18 ár.

Einstaklingur undir 18 ára telst vera barn

Ástarsambandið hófst þegar hann var fimmtán ára gamall og fljótlega eftir að það hófst varð Ásthildur ólétt. Þegar barnsfaðirinn var 16 ára og Ásthildur 23 ára þá eignuðust þau saman son.

Vert er að taka fram að einstaklingar undir 18 ára teljast börn í skilningi laganna. Í frétt RÚV segir:

„Samræðisaldur er hins vegar fimmtán ár, en var áður fjórtán ár. Þetta er þó ekki algilt því óheimilt er að hafa samræði við manneskju undir átján ára ef viðkomandi er til dæmis kennari hennar eða leiðbeinandi. Þá er sömuleiðis óheimilt að hafa samræði við manneskju ef hún er undir átján, er háður viðkomandi fjárhagslega, í atvinnu sinni, eða sem skjólstæðingur í trúnaðarsambandi. Þetta getur varðað allt að þriggja ára fangelsi.“

Ásthildur hafnaði barnsföður að umgangast barnið

Fram kemur að Ásthildur Lóa hafi fyrstu mánuðina átt frumkvæði að því að finna tíma fyrir feðgana til að hittast. Eftir að hún kynntist eiginmanni sínum hafi það þó breyst að sögn Eiríks.

Hann leitaði til dómsmálaráðuneytisins og fjölskylduþjónustu kirkjunnar og fór fram á það að fá að umgangast drenginn.

Fréttastofa RÚV kveðst hafa fengið gögn sem staðfesta það og þar kemur líka fram að Ásthildur Lóa hafi hafnað honum um umgengni.

Fékk að hitta barnið í sólarhring á ári

Eiríkur kveðst hafa fengið samþykktar tvær klukkustundir í mánuði með drengnum, á heimili Ásthildar Lóu og eiginmanns hennar. Það jafngildir einum sólarhring á ári.

Ásthildur Lóa krafði hann um meðlag og maðurinn greiddi það í átján ár.

Rauf forsætisráðuneytið trúnað?

Forsætisráðuneytið fékk erindi um þetta mál á sitt borð fyrir viku síðan, frá aðstandanda barnsföður ráðherra, samkvæmt RÚV. Starfsmenn ráðuneytisins fullvissuðu sendanda um að öll erindi væru trúnaðarmál.

Hins vegar fékk Ásthildur Lóa upplýsingar um inntak erindisins og hver það var sem sendi það. Hún bæði hringdi í viðkomandi og mætti á heimili hans í kjölfarið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert