Erfiðasta sem ég hef gert

Helga Guðný fann sína köllun þegar hún kynntist barre. Hún …
Helga Guðný fann sína köllun þegar hún kynntist barre. Hún rekur nú NúnaCo, barre-stúdíó, úti á Granda. Ljósmyndir/Ingólfur Guðmundsson

Á Ránargötunni býr Helga Guðný ásamt eiginmanni og þremur af fjórum sonum. Hún er aldrei þessu vant heima með þeim yngsta, enda vetrar­frí í skólum þegar blaðamann ber að garði. Helga Guðný býður upp á kaffi og súkkulaðihjúpað mangó og segir frá barre-ævintýrinu mikla, en fyrir tilviljun endaði hún, grafískur hönnuður, með brennandi ástríðu fyrir þessari sérstöku líkamsrækt.

Að hlusta á líkamann

Hvað er barre?

„Í grunninn er barre sambland af pilates, jóga og styrktaræfingum sem við gerum bæði í miðjum sal og eins upp við ballettstöng sem við nýtum sem jafnvægisslá,“ segir Helga Guðný og útskýrir að æfingarnar hafi í upphafi verið hannaðar fyrir ballerínu sem meiddist í baki og þurfti á endurhæfingu að halda.

Barre nýtur sífellt meiri vinsælda. Það er erfiðara en það …
Barre nýtur sífellt meiri vinsælda. Það er erfiðara en það lítur út fyrir að vera!

„Við erum alltaf að vinna í réttri stöðu líkamans, undir góðri leiðsögn. Við snertum fólk og leiðréttum í tímanum, þannig að þú fáir tilfinninguna fyrir til dæmis réttri mjaðmastöðu eða hvernig á að ná slökun í öxlum. Við viljum ná fram slöku ástandi í líkamanum til að geta unnið djúpt inn í vöðva,“ segir Helga Guðný, en unnið er með lítil og létt lóð og hver og einn vinnur á sínu getustigi.

„Við skiptum tímanum upp í nokkrar æfingar en þær flæða saman þannig að fólk heldur brennslustiginu gangandi og á sama tíma lærist að færa sig á milli æfinga á góðan hátt. Þetta snýst um að hlusta á líkamann,“ segir Helga Guðný og nefnir að öndun skipti miklu máli í barre.

„Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert og það er mjög auðmýkjandi að koma í sinn fyrsta barre-tíma,“ segir Helga Guðný og brosir.

„Ég náði þarna einhverri innri tengingu sem varð til þess að ég heillaðist svona rosalega,“ segir Helga Guðný, en hún kynntist barre í Kalíforníu þar sem fjölskyldan bjó í þrettán ár. 

Ekki fræðilegur möguleiki!

Eftir að Helga Guðný var orðin heilluð af barre í Kalíforníu, lét hún til skarar skríða og hafði samband við höfuðstöðvar barre, The Dailey Method, og kynnti sig.

„Ég spurði bara hvort þau vantaði grafískan hönnuð því mig langaði svo að finna leið til að verða hluti af þessu. Þá kom í ljós að þarna var stelpa að opna stúdíó ekki langt frá Petaluma þar sem við bjuggum og ég var sett í samband við hana. Við fengum okkur kaffi og ég stakk upp á að ég myndi vinna í móttökunni og hugsaði að ég gæti þá fengið að koma í fría tíma, en ég var enn að frílansa í grafíkinni. Mér fannst það mín leið inn, en þá sagðist hún vera að leita að kennurum og stakk upp á að ég myndi kenna. Ég var svaraði bara að það væri ekki fræðilegur möguleiki, en hún vildi endilega að við færum í tíma saman. Eftir það vildi hún að ég endurskoðaði þetta tilboð,“ segir Helga Guðný sem endaði á að fara í frekari þjálfun og skuldbatt sig til að vinna í stúdíóinu í sex mánuði.

Helga Guðný er grafískur hönnuður en þessa dagana á barre …
Helga Guðný er grafískur hönnuður en þessa dagana á barre hug hennar allan.

„Ég þróaði mig áfram og hún var ótrúlega góður mentor. Ég fylltist fljótt af öryggi þrátt fyrir öll mistökin, sem ég lærði svo af.“

Breyting varð svo á vinnu Ingólfs og fékk hann vinnu í Los Angeles. Þá var bara að pakka búslóðinni saman og þremur börnum og flytja enn á ný.

Svo skellur covid á

Í Los Angeles tók við leitin að næsta barre-stúdíói því að það varð ekkert aftur snúið hjá Helgu Guðnýju. Það fannst og fljótlega var hún farin að kenna. Áður en varði var henni boðið að kaupa hlut í stúdíóinu en arfur sem hjónunum tæmdist á þessum tíma kom sér vel.

„Við stukkum á þessa fjárfestingu sem eftir á að hyggja var kannski galin því við vissum ekkert hvað við yrðum lengi þarna. En ég vissi alltaf að þetta væri það sem ég átti að vera að gera,“ segir hún, en hún átti helming í þessu stúdíói í um þrjú ár.

„Þá var ég orðin ófrísk og var reyndar líka búin að opna búð í LA,“ segir Helga Guðný, en fjórði sonurinn kom í heiminn og ákváðu þær stöllur að selja reksturinn. Helga Guðný var þó farin að kenna aftur hálfu ári síðar og tók þá aðra barre-gráðu.

Stundum eru boltar eða létt lóð notuð í tímunum.
Stundum eru boltar eða létt lóð notuð í tímunum.

„Það var gaman að taka nýtt nám og vera að kenna og áður en ég vissi af var ég farin að stýra þessu stúdíói,“ segir hún og hlær.

„Ég bætti líka við mig jógakennaranámi en ég var þá líka farin að kenna konum að verða barre-kennarar. En svo bara skellur covid á.“

Að breiða út boðskap

Fjölskyldan flutti heim, og ekki gat Helga Guðný haldið sig lengi frá barre eftir heimkomuna. Hún byrjaði á að vera með námskeið hjá Hreyfingu tvisvar í viku.

„Ég fann fljótt að þetta líkamsræktarandrúmsloft hentaði mér ekki eftir að hafa lært inn á þennan „boutique-fitness“-heim þar sem er persónulegri nálgun. Ég talaði við konu frænda míns, sem hafði ýtt á mig að kynna fyrir sér barre, og sagði við hana að ef hún fyndi fyrir mig fimmtán konur skyldi ég finna sal. Og þannig varð NúnaCo. til,“ segir hún.

„Ég byrjaði með tíma þrisvar í viku en svo komu fleiri hópar og þetta óx,“ segir Helga Guðný, en stöðin hennar flutti svo ári síðar, árið 2022, í núverandi stúdíó úti á Granda.

„Mig langar mikið til að breiða út þennan „boutique fitness“-boðskap,“ …
„Mig langar mikið til að breiða út þennan „boutique fitness“-boðskap,“ segir Helga Guðný.

„Ég náði strax að búa til þá stemningu sem mig langaði til að hafa. Ég þekki allar konurnar mínar með nafni og þær eru búnar að kynnast. Það er ótrúlega skemmtilegt. Ég er að búa til upplifun,“ segir Helga Guðný, en auk þess að reka NúnaCo. og kenna þar, tekur hún einnig konur í kennaranám. Helga Guðný bjó til sitt eigið nám sem er það fyrsta utan Bandaríkjanna sem hefur verið samþykkt af Barre Fitness Alliance.

„Mig langar mikið til að breiða út þennan „boutique fitness“-boðskap. Í okkar tímum er ólgusjór af orku og þegar ég horfi yfir hópinn fyllist hjartað mitt af gleði.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert