Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra vissi af ásökunum á hendur Ásthildar Lóa Þórsdóttur, fráfaranda barna- og menntamálaráðherra, fyrir viku síðan. Aðstandandi í málinu óskaði eftir fundi með Kristrúnu, sem hún hafnaði.
Þetta kom fram á blaðamannafundi Kristrúnar í Stjórnarráðinu í kvöld í kjölfar þess að Ásthildur Lóa sagði af sér ráðherradómi.
Ásthildur sagði af sér fyrr í kvöld í kjölfar þess að Ríkisútvarpið greindi frá því að Ásthildur hefði átt samræði við 15 ára dreng þegar hún var 22 ára. Ásthildur leiðbeindi drengnum í trúarsöfnuði í Kópavogi og ári eftir að hún hóf samræði við drenginn eignuðust þau barn.
9. mars hafði aðstandandi Eiríks Ásmundssonar, mannsins sem um ræddi, samband við forsætisráðuneytið og óskaði eftir fund með forsætisráðherra. Aðstandandinn er kona og aftur óskaði hún eftir fundi 11. mars.
Tók hún þá fram að það varðaði barnamálaráðherra. Enn fremur var tekið fram að Ásthildur Lóa mætti sitja fundinn. Forsætisráðherra óskaði þá eftir nánari upplýsingum um erindi fundarins.
„Þá bárust mér upplýsingar um erindið og í kjölfarið þá er tekin sú ákvörðun um að bjóða ekki upp á einkafund með forsætisráðherra,“ sagði Kristrún Frostadóttir á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu.
Í erindinu komu fram upplýsingar sem alþjóð er nú kunnugt um. Málið var því ekki skoðað nánar fyrr en að fjölmiðlar hófu umfjöllun sína um það í gær.
Fyrir liggur að vika er liðin síðan að Kristrún var upplýst um að ráðherra í hennar ríkisstjórn hefði verið sakaður um að hafa sofið hjá barni. Kristrún segir að með því að hafna beiðni um fund hafi hún ekki verið að taka afstöðu í málinu.
„Það er ekki fyrr en í dag sem ég fæ upplýsingar um að það sem fram kemur í þessu bréfi, sem barst fyrir um viku síðan, hafi verið í meginatriðum rétt. Í kjölfarið bið ég um og fæ staðfestingu á því, og funda í kjölfarið með barna- og menntamálaráðherra. Og hún tekur í kjölfarið ákvörðun um að segja af sér.“
Ákvaðst þú að skoða ekkert nánar fullyrðingar um það að ráðherra í þinni ríkisstjórn hefði sofið hjá barni?
„Það er auðvitað þannig að forsætisráðuneytinu berst fjöldann allan af erindum og eins og ég segi að þó að eitthvað berist hingað inn og einkafundi með forsætisráðherra er hafnað, það þýðir ekki að það sé búið að taka endanlega afstöðu í þessu máli,“ segir Kristrún.
Kristrún var aftur spurð að því af hverju hún aðhafðist ekki í málinu í heila viku, fyrr en Ríkisútvarpið skoðaði málið í gær. Hún var ítrekað spurð hvort að hún hefði leitað eftir staðfestingu á því sem fram kom í erindinu en hún svaraði því ekki að öðru en að málið hefði verið reifað og fundinum hafnað.
Ráðherra í þinni ríkisstjórn er sakaður um að hafa átt samræði við barn og þið í viku skoðið ekki málið, hvort að það sé rétt, fyrr en fréttamiðlar byrja að garfa í því viku seinna.
„Það að við höfum ekki tekið efnislega afstöðu til málsins eða rannsakað málavexti út af máli sem berst hérna inn í forsætisráðuneytið þýðir ekki að við við aðhöfumst ekki eða það standi ekki til að gera nokkurn skapaðan hlut,“ segir Kristrún og ítrekar að forsætisráðuneytinu berist fjöldinn allur af málum og athugasemdum.
„Það vill bara þannig til að í dag – vegna meðal annars já, fjölmiðlar eru með málið – þá koma fleiri upplýsingar fram staðfesta að ef það lá grunur á bak við þetta, reyndist þetta rétt,“ segir Kristrún