Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að Flokkur fólksins sé alfarið á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Hún segir jafnframt að það virðist aftur á móti gæta einhvers skringilegs misskilnings þegar verið sé að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þar sem Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, ræddi um þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Hún benti í ræðu sinni að sambandið hefði veikst á mörgum sviðum og ekki sýnt þann stöðugleika sem fólk vildi sjá.
„Hnignun í samstarfi og vaxandi vantraust innan ESB-ríkjanna sjálfra ætti einnig að kalla á varfærni og gagnrýna hugsun. Einhverjir hafa fært þau rök fyrir inngöngu að það sé til þess að ná verðbólgu og vöxtum niður, en hafa fært sig yfir á vagn varnar- og öryggismála í dag þegar við sjáum vexti á niðurleið. Við búum vissulega við óvissu í alþjóðakerfinu sem krefst þess að við stöndum vaktina í varnarmálum og utanríkisstefnu en slík staða réttlætir ekki róttækar stefnubreytingar. Að ganga í ESB væri stærsta utanríkisákvörðun sem Ísland tæki frá lýðveldisstofnun og krefst vandaðs undirbúnings.
Ég vil því spyrja hæstvirtan ráðherra: Styður hæstvirtur ráðherra það að flýta þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið?“
Inga sagði rétt að Flokkur fólksins væri alfarið á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
„Það virðist gæta einhvers skringilegs misskilnings þegar við erum að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu er ekki verið að greiða atkvæði um hvort við séum að ganga í Evrópusambandið. Það er verið að greiða atkvæði um það hvort við eigum að hefja aðildarviðræður að nýju um inngöngu í Evrópusambandið þar sem í rauninni Íslendingum öllum gefst tækifæri á því að segja sína skoðun um það. Þetta er lýðræðislegt mannréttindamál og eins og Flokkur fólksins hefur alltaf sagt: Við erum algjörlega hlynnt beinu lýðræði. Við treystum þjóðinni algjörlega fyrir því að taka ákvarðanir. Flokkur fólksins mun í öllu virða þær ákvarðanir sem þjóðin tekur sjálf við kjörborðið þannig að áfram segi ég það, svo það sé hafið yfir allan vafa: Flokkur fólksins mun segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni,“ sagði Inga.
Hún bætti við að það væri eiginlega sorglegt ef háttvirtir þingmenn gerðu ekki greinarmun á þjóðaratkvæðagreiðslu sem fæli í sér spurninguna til þjóðarinnar um það hvort hún vildi hefja aðildarviðræður eða spurningu til þjóðarinnar um hvort hún ætti að ganga í Evrópusambandið.
„Hvort við eigum að flýta þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu eins og háttvirtur þingmaður nefnir — ég sé enga ástæðu til þess. Það hefur ekki komið inn á mitt borð og ég hef ekki tekið neina ákvörðun hvað það varðar eða hef þurft að ræða það til þessa, þannig að Flokkur fólksins segir nei.“
Ingibjörg þakkaði Ingu fyrir skýr svör.
„Það er nefnilega oft látið líta svo út eins og viðræður við ESB séu bara ákveðin skoðunarferð, að við séum að kíkja í pakkann. En staðreyndin er sú að aðildarviðræður eru aðlögunarferli. Þær snúast ekki um að semja um hvað við fáum heldur hvernig við getum aðlagað íslenskt samfélag að kerfum og regluverki sambands sem hefur breyst mikið á síðustu árum,“ sagði hún.
Hún spurði þvínæst Ingu hvort hún myndi virða niðurstöðu þjóðarinnar, færi svo að hún samþykkti inngöngu í ESB.
„Við erum hér starfandi fyrir þjóðina, í hennar umboði, og það mun ég halda áfram að gera af öllu mínu hjarta. Þannig að ef þjóðin mín talar í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó að ég sé henni ekki sammála, þá mun ég í öllum tilvikum samþykkja þá niðurstöðu vegna þess að ég treysti þjóðinni minni til að rata réttan veg sem er henni fyrir bestu,“ sagði Inga.