„Ég er ofsalega ánægður með niðurstöðuna. Ef eitthvað er þá er þetta nafn eiginlega flottara. Það er meira í mínum stíl,“ segir Kiddi kanína, tónleikahaldari með meiru, sem í vikunni fékk loks samþykkt nýtt nafn hjá Þjóðskrá.
Eins og Morgunblaðið hefur greint frá sótti Kiddi upphaflega um að fá að taka formlega upp nafn sem hefur fylgt honum um áratugaskeið; Kanína. Kiddi sótti um það hjá Þjóðskrá að fá að heita Kristinn Kanína Sigríðarson. Því var hafnað og í kjölfarið var nafninu skotið til úrskurðar mannanafnanefndar. Þar var því sömuleiðis hafnað og fylgdi úrskurðinum að nefndin teldi að það gæti orðið honum til ama.
Kiddi segir að þarna hafi kerfið ætlað að hafa hann að háði og spotti. Hann hafi ákveðið að gefast upp en um leið að finna lausn sem gæti gengið. „Upphafið að sigrinum var að gefast upp en svo kom lausnin,“ segir hann.
Lausnin fólst í því að taka upp nafnið Kristinn Karl Nína Sigríðarson, skráð Ka. Nína í Þjóðskrá. „Anna hjá Þjóðskrá hringdi eftir lokun, dansaði lipurlega með mér í þessu og skellihló allan tímann. Hún sagði að þetta væri skemmtilegasta nafnbreyting sem hún hefði farið í gegnum,“ segir Kiddi.
Kiddi kanína rak um árabil plötubúðina Hljómalind og var afkastamikill í tónleikahaldi. Hann var einn af skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar Uxa árið 1995 og flutti inn þekktar hljómsveitir auk þess að vera umboðsmaður Sigur Rósar í upphafi ferils sveitarinnar.