Á 35 árum frá árinu 1990 var svigrúm til að fjórfalda laun hér á landi en á sama tíma voru laun tífölduð.
Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og fyrrverandi félagsmálaráðherra, í erindi sínu á málstofu um jöfnun kjara á milli vinnumarkaða í Háskóla Íslands í dag.
Auk Þorsteins fluttu erindi á málstofunni; Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins, Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar og Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM.
Fyrirlesarar voru sammála um að ekki væri einfalt að útfæra aðferð til að jafna laun skv. 7. gr. samkomulagsins frá árinu 2016 um að jafna launamun á innan við áratug.
Sagði Þorsteinn svigrúm til launahækkana vera framleiðniaukningu vinnumarkaðarins að viðbættri verðbólgu.
Launahækkanir umfram það svigrúm sagði hann að birtist í aukinni verðbólgu sem éti launahækkanirnar upp en ef launahækkanir væru innan svigrúmsins héldist kaupmáttaraukning í hendur við framleiðniaukningu sem hefur verið um 1,5%.
Þorsteinn sagði norræna vinnumarkaðinn ekki fullkominn en að hann semji meira og minna innan þessa svigrúms og benti hann á að þar hafi tekist, við ólíkar aðstæður, að skapa meiri stöðugleika verðbólgu og vaxta.
Í erindi sínu nefndi ráðherrann fyrrverandi að opinberi vinnumarkaðurinn leiði launahækkanir hér á landi en eðlilegra væri að því væri öfugt farið.
Starfsmenn á opinbera markaðnum njóti þá einnig ríkari réttinda á borð við uppsagnarverndar, veikindaréttar, orlofs og styttingu vinnuvikunnar en samt sem áður sé verkfallstíðni opinbera markaðarins mun hærri en hins almenna.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, benti í sínu erindi á skertan hlut lágtekjufólks, þar tók hann út fyrir sviga verkafólk á almennum vinnumarkaði.
Sagði hann mismun heildarlauna þegar tekið væri tillit til vinnuskyldu vera um það bil 152 þúsund á milli ófaglærðra á opinberum markaði og almennum markaði.
Vilhjálmur minntist einnig á uppsagnavernd og nefnir sem dæmi að fáir eða enginn hafi misst vinnuna í Covid á opinbera markaðnum en á sama tíma hafi um 20-25 þúsund manns misst vinnuna á almenna markaðnum.
Þá sagði hann lægstu laun hafa hækkað um 96% frá árinu 2015 en á sama tíma hafi launavísitalan hækkað um 109%.
Almennt um launahækkanir sagði verkalýðsleiðtoginn að vaxtahækkanir kosti miklu meira en launahækkanir og vextina fara beint út í verðlagið og það borgi fólkið í landinu.
Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, gerði upplýsingar um vinnumarkaðinn að umtalsefni sínu.
Sagðist Ragnar velta fyrir sér hvort hægt sé að bera saman laun þegar ekki allar upplýsingar liggi fyrir. Nefndi hann vinnutíma stjórnenda sem dæmi en þeir vinni ekki eftir stimpilklukku.
Hann spurði hvaða hópa væri eðlilegt að bera saman og spurði hvort allar upplýsingar sem liggja að baki launum þeirra hópa liggi fyrir.
Þá minntist Ragnar lauslega á ákveðin réttindi sem almenni markaðurinn eigi oft erfitt með að bjóða sínu starfsfólki. Nefndi hann minnstu fyrirtækin sem dæmi og að þau geti átt í miklum erfiðleikum með að mæta veikindarétti og að bjóða starfsfólki upp á námsleyfi.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, benti á muninn á umhverfi starfsfólks á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Á almennum vinnumarkaði byggi starfsfólk og atvinnurekendur við umhverfi einkaréttar og þar væri samningsfrelsi meira.
Á meðan á opinberum vinnumarkaði byggi starfsfólk og atvinnurekendur við umhverfi ríkisréttar og þar gildi reglur stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar.
Helga vill meina að starfsfólk á opinbera markaðnum sæti stundum ósanngjarnri gagnrýni og kallaði hún eftir umburðarlyndi í umræðunni.
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, benti í erindi sínu á og varaði við þeirri miklu skautun sem endurspeglast í umræðunni um vinnumarkaðinn og jöfnun kjara á milli markaða.
Sagði hún aldrei hægt að segja að vinnumarkaðurinn sé svartur og hvítur og hvatti viðstadda til að leyfa sér að geta talað um þá dínamík sem sé á vinnumarkaði.
Hún minntist á hópa sem ekki eru alltaf í umræðunni um að jafna kjör. Þá sem vinna hjá opinberum hlutafélögum, þá sem vinna sjálfstætt á eigin kennitölu og þá sem lifa á fjármagnstekjum og greiða ekki útsvar.
Kolbrún ræddi launaspönn og sagði að sama svigrúm þyrfti að vera hér á landi og á öðrum Norðurlöndum þegar kemur að spönn launa.
Þá tók hún undir mikinn skort á gögnum og minntist til að mynda á svokallað ævitekjulíkan sem sé ekki til staðar.
Kolbrún sagði að í sínum huga væri mjög erfitt að finna aðferð til að jafna laun skv. 7. gr. samkomulagsins um að jafna launamun á innan við áratug.
Kvatti hún þó viðstadda til að halda áfram að ræða málin og sagði alla þurfa að vinna saman enda væru allir á sama báti.