Vegna vinnu við tengingu á nýjum miðlunartanki fyrir kalt neysluvatn í Kópavogi verður lokað fyrir rennsli kalds vatns í kvöld frá klukkan 22:00 til 04:00 í nótt og nær lokunin til alls Kópavogs fyrir utan Vatnsendahverfi.
Sundlaugar bæjarins loka klukkan 21:30 í kvöld af þessum sökum.
„Vinsamlegast athugið að það getur myndast loft í kerfinu eftir að vatni hefur aftur verið hleypt á og það getur verið skynsamlegt að hreinsa síur í vatnsinntökum og blöndunartækjum,“ segir í tilkynningu Kópavogs auk þess sem bent er á að þeir sem eru með varmaskipta geta lent í því að ekki komi heitt vatn á meðan.
„Lokunin hefur ekki áhrif á vatnsöflun til Garðabæjar, en Vatnsveita Kópavogs sér Garðabæ fyrir vatni,“ segir enn fremur.