Inga Sæland kveðst harmi slegin og að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fráfarandi barna- og menntamálaráðherra, eigi allan hennar hug. Inga segir að það sé Ásthildar að meta hvort að hún haldi áfram á þingi.
„Ég er í rauninni harmi slegin. Ásthildur Lóa á allan minn hug núna og ég sendi henni kærleikskveðjur. Þetta er mannlegur harmleikur sem hér er um að ræða,“ sagði Inga Sæland á blaðamannafundi fyrr í dag.
Eftir að hún sagði Ásthildi eiga allan hennar hug var hún spurð: „En barnsfaðirinn?“
Hún svaraði því ekki.
Ásthildur sagðist myndu stíga úr stóli í gær eftir að greint var frá því að hún hefði haft samræði við 15 ára dreng þegar hún var 22 ára gömul.
„Við fengum að upplifa hvernig við fáum að sjá einn einstakling mulinn mélinu smærra,“ sagði Inga um atburðarásina í gær og í dag.
Inga var spurð hvort Ásthildi væri stætt að sitja áfram á þingi í kjölfar málsins. Inga tók þá fram að Ásthildur væri oddviti Suðurkjördæmis og hefði með því fengið tvímælalaust traust kjósenda.
„Ekki ætla ég að fara að stíga inn í það heldur er það Ásthildar Lóu að meta það sjálf, það er ekki ríkisstjórnarinnar. Við vorum ekki þau sem greiddum henni öll þessi atkvæði en við greiddum henni fullt traust,“ sagði Inga.
Hún sagði Ásthildi vera leiðtoga sem hefði verið frábær barna- og menntamálaráðherra.