Ásthildur vildi bætur frá ríkinu eftir eigin mistök

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fráfarandi ráðherra.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, fráfarandi ráðherra. mbl.is/Karítas

Málarekstur Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fráfarandi barna- og menntamálaráðherra, fyrir dómstólum vakti nýverið athygli landsmanna og ekki síst fyrir þær sakir að ráðherrann fráfarandi vandaði dómstólum landsins ekki kveðjurnar í kjölfar þess að hún laut í lægra haldi fyrir íslenska ríkinu sem hún hafði krafið um skaðabætur.

Í sem stystu máli kröfðu Ásthildur Lóa og eiginmaður hennar, Hafþór Ólafsson, íslenska ríkið um skaðabætur í kjölfar þess að söluandvirði nauðungarseldrar fasteignar þeirra var m.a. ráðstafað til greiðslu vaxta sem hjónin töldu fyrnda.

Vildu þau m.a. meina að sýslumaður hefði átt að taka tillit til fyrningar vaxta í frumvarpi um úthlutun uppboðsandvirðis vegna nauðungarsölu á fasteign þeirra hjóna í Garðabæ. Með því að gera það ekki hefði embætti sýslumanns bakað þeim fjárhagstjón.

Fyrning vaxta ekki meðal málsástæðna

Ýmsar hliðar málsins hafa verið raktar í fjölmiðlum en eftir situr einn áhugaverður vinkill þess: Áður en til ofangreinds málareksturs kom höfðu hjónin og Arion banki, sem var gerðarbeiðandi nauðungarsölunnar, tekist á um úthlutun söluandvirðis fyrir dómstólum en hjónunum láðist að tefla fyrningu vaxta fram sem málsástæðu í kröfulýsingu sinni og sátu þau þess vegna uppi með vextina óháð meintri fyrningu.

Hafi vextirnir í reynd verið fyrndir hefði varla komið til þess að kröfu vegna þeirra hefði verið haldið til streitu, ef ekki hefði verið fyrir þessi mistök hjónanna.

Í kjölfar þessa kröfðu þau ríkið um skaðabætur vegna hinna meint fyrndu vaxta, sem þeim sjálfum láðist að mótmæla er úthlutun söluandvirðis var tekin fyrir hjá dómstólum. Rétt er að geta þess í þessu samhengi að í niðurstöðum nýfallins héraðsdóms vegna skaðabótakröfunnar er tekið fram að álitaefni kunni að vera uppi um hvort vextirnir hafi í reynd verið fyrndir, enda hafi reifun í málatilbúnaði hjónanna á því hvenær vaxtagreiðslur gjaldféllu verið ábótavant.

Ásthildur Lóa ásamt manni sínum, Hafþóri Ólafssyni, og lögmanni þeirra …
Ásthildur Lóa ásamt manni sínum, Hafþóri Ólafssyni, og lögmanni þeirra hjóna, Sævari Þór Jónssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Söluandvirðið nam 60 milljónum

Málið er um margt áhugavert, en í fyrri málarekstri hjónanna stefndu þau Arion banka vegna fyrrnefnds frumvarps sýslumanns um úthlutun uppboðsandvirðis. Málið var tekið fyrir í héraði árið 2018 og síðar sama ár fyrir Landsrétti.

Kröfðust hjónin þess að fjárhæð úthlutunar til Arion banka yrði lækkuð verulega, en samkvæmt frumvarpi sýslumanns átti allt söluandvirðið að renna til bankans, enda væru kröfur hans hærri en söluandvirði fasteignarinnar, sem nam 60 milljónum króna.

Í málinu var upphaflega tekist á um hvort rétt væri að því staðið að gjaldfallnir vextir væru hluti af aðalkröfu Arion banka í málinu, en við málareksturinn sammæltust málsaðilar um að þeir yrðu eftirstæðir aðalkröfu og snerist deilan eftir það eingöngu um hvort taka ætti tillit til meintrar fyrningar vaxta, þrátt fyrir að fyrning hefði ekki verið meðal málsástæðna í kröfulýsingu hjónanna í héraði en hjónin tefldu fyrningu sem málsástæðu fyrst fram í munnlegum málflutningi.

Héraðsdómur Reykjaness féllst á sjónarmið hjónanna um fyrningu vaxta þrátt fyrir að málsástæðan væri seint fram komin í málinu og úrskurðaði að hjónin fengju um 19 milljónir króna af söluandvirðinu.

Arion banki skaut úrskurðinum til Landsréttar, sem sneri honum við. Þar sem hjónunum láðist að tefla fyrningu vaxta fram sem málsástæðu í kröfulýsingu sinni í héraði, og gerðu það ekki fyrr en við munnlegan málflutning í héraði, mat Landsréttur að málsástæðan væri of seint fram komin, enda segir í lögum um meðferð einkamála að málsástæður skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til.

Fengu eignina á nokkrum afslætti

Í úrskurði Landsréttar segir m.a.:

„Gegn mótmælum sóknaraðila [...] var ekki heimilt að hleypa áðurgreindri málsástæðu að í málinu enda var engin forsvaranleg ástæða fyrir því að halda henni ekki fram frá byrjun.“

Í kjölfar Landsréttarúrskurðarins frá árinu 2018 fóru hjónin fram á endurupptöku úrskurðarins árið 2019.

Þau drógu endurupptökubeiðnina til baka í kjölfar samkomulags sem gert var við Arion banka sem fól meðal annars í sér að hjónin keyptu fasteignina sem áður hafði verið nauðungarseld á 55,5 milljónir króna, 4,5 milljónum lægra en slegið söluverð á uppboðinu 2017.

Miðað við þróun fasteignaverðs á þessum árum er óhætt að slá því föstu að hjónin hafi keypt eignina á nokkrum afslætti en ekki liggur fyrir hvort þar hafi verið litið til þess að bankinn hafi fengið greidda vexti sem hugsanlega voru fyrndir.

Ljóst má þó vera að núvirði þess afsláttar sem hjónin fengu á raunvirði eignarinnar er umtalsvert meiri en það tjón sem þau kunna að hafa orðið fyrir eftir að þeim láðist að tefla fyrningu vaxta fram sem málsástæðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert