Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, opnaði austurálmu Keflavíkurflugvallar við hátíðlega athöfn í gær, en heildarkostnaður við hana nemur tæplega 30 milljörðum. Stækkar flatarmál flugstöðvarinnar um 30% með þessari stækkun, en meðal annars bætast við fjórir nýir landgangar.
Álman er eitt af fyrstu stóru skrefunum í þróunaráætlun vallarins og mun efla hann sem tengistöð með því að fjölga flugtengingum og styrkja þannig samkeppnishæfni Íslands.
Forstjóri Isavia segir félagið nú hætt að elta skottið á sér þegar komi að því að fylgja fjölgun ferðamanna til landsins og sé nú í leiðandi stöðu. Stjórnarformaður félagsins segir komandi stækkunarframkvæmdir kalla á aukið hlutafé.
„Það er mjög ánægjulegt að við séum að opna þessa álmu. Isavia lauk verkinu bæði á kostnaðaráætlun og innan tímamarka, sem því miður er of fágætt en er mjög góður árangur. Þetta er glæsileg bygging sem mun skapa tækifæri til að þróa Ísland áfram sem áfangastað og sem áfangastað fyrir tengiflug. Ég óska Isavia til hamingju,“ sagði Daði í samtali við mbl.is að ræðu lokinni.
Í ræðu sinni fagnaði Daði opnun álmunnar og sagði hana stækka flugstöðina um 30%. Keflavíkurflugvöllur geti með álmunni stutt betur við vöxt flugfélaga og annarra viðskiptavina samhliða því að bæta upplifun gesta. Þá sé álman áþreifanleg staðfesting á framtíðarsýn um að Keflavíkurflugvöllur verði alþjóðleg tengistöð milli Evrópu og Norður-Ameríku. Alþjóðleg tengsl og samgöngur séu undirstaða hagvaxtar og velsældar á Íslandi.
Aðspurður segir hann næsta skref verða svokallað hjarta flugvallarins, en það er bygging sem mun tengja alla hluta flugstöðvarinnar betur saman. Farþegar geta þá flætt betur um alla flugstöðina, sem eykur bæði skilvirkni vallarins og upplifun farþega svo um munar.
„Við höfum til dæmis ekki náð að bjóða upp á fullnægjandi setusvæði við hliðin okkar, hluti af þessu er að bæta úr þeirri þjónustu við farþegana.“
Nú hafa einhverjir farþegar haft orð á því að flutningar í og úr vélum með rútu hafi aukist, þau sakni þess að ganga landganginn. Hverju breytir þessi nýja álma varðandi þá fólksflutninga?
„Þetta hefur fylgt því að síðustu ár hefur verið gríðarleg eftirspurn eftir afköstum, fyrir okkur hafa rútur verið hluti af því að búa til afköst. Það kostar mikið meira og er mikið tímafrekara að byggja hús með landgöngubrú.
Það næsta sem gerist er að framlenging verður byggð við austurálmuna, til þess að hægt sé að setja tengibrýr við stæðin og þá erum við að draga úr notkuninni á rútunum. Okkar hönnunarforsendur eru þær að yfir sumartímann séu um 75% farþega að fara um brýr og yfir veturinn sé enginn rútuakstur, en það eru alveg einhver ár í að við náum þeim árangri.“
Eins og áður segir hafa framkvæmdir við álmuna staðið yfir í nokkurn tíma. Árið 2021 hóf fjármála- og efnahagsráðherra framkvæmdir að álmunni með skóflustungu þann 1. júní.
Árið 2023 var nýr og rúmbetri komusalur tekinn í notkun með nýrri farangursmóttöku á jarðhæð og farangurskerfi í kjallara tekið í notkun í ágúst, og stórbætt aðstaða fyrir gesti til að taka á móti farangri og skilvirkari afhending farangurs.
Í mars árið 2024 var nýtt svæði fyrir fríhafnarverslun á komusvæði tekið í notkun og nýtt veitingasvæði á brottfararsvæði með auknu úrvali veitingastaða tekið í notkun í nóvember.
Í ár hófust svo prófanir í febrúar og formleg opnun var í gær, 20. mars. Fjórir nýir landgangar beint út í vél voru teknir í notkun og tvö ný hlið til að þjónusta fjarstæði sem bætir upplifun gesta flugvallarins. Rúmgott biðsvæði er fyrir brottför og nýtt flughlað og landgangar bæta aðstöðu til þjónustu flugvéla.
Heildarkostnaður er áætlaður 29,6 milljarðar, sem er í samræmi við þann ramma sem settur var í upphafi. Verkáætlun hefur staðist að mestu þrátt fyrir áskoranir vegna heimsfaraldurs og truflanir á aðfangakeðjum vegna stríðsins í Úkraínu.
Álman er 25 þúsund fermetrar að flatarmáli, sem þýðir um 30% stækkun flugstöðvarinnar, en til samanburðar er tónlistarhúsið Harpa tæpir 30 þúsund fermetrar samkvæmt Fasteignaskrá. Álman er 31 m að hæð, til samanburðar eru turnar Akureyrarkirkju 26 m. Þá er hún 66 m að breidd, sem er svipað breidd knattspyrnuvallar, og 124,5 m að lengd, sem er svipað og Bankastræti í Reykjavík.
Að lokum jafnast 22.600 fermetra flughlað með eldsneytisáfyllingu á við rúmlega þrjá fótboltavelli.